„Man has made his match… Now it’s his problem.“

Nú þegar Blade Runner framhaldið fer að detta í bíó er ekki úr vegi að rifja upp þá gömlu. Þessi útgáfa, The Final Cut, kom út á 25 ára afmæli myndarinnar en þetta er SJÖUNDA útgáfa myndarinnar skv. Wikipedia. Þetta er hinsvegar eina útgáfan sem menn ættu að horfa á þar sem þetta er eina útgáfan sem Ridley Scott hefur fengið að stjórna að öllu leyti.

Blade Runner er almennt viðurkennd sem ein besta kvikmynd allra tíma og vissulega ein allra besta vísindaskáldsaga sem kvikmynduð hefur verið. Það er drungalegur noir andi yfir myndinni og hún er talsvert þung, sem getur þó fælt suma frá. Myndin gerist í Los Angeles árið 2019 og Rick Deckard (Harrison Ford) starfar við að drepa hættulega klóna sem kallast eftirlíkingar (replicants). Rutger Hauer og Sean Young fara með stærstu hlutverkin á móti Ford ásamt Daryl Hannah og William Sanderson.

Ég viðurkenni að fyrst þegar ég sá þessa mynd fannst mér hún ofmetin, en ég veit ekki hvað ég var að hugsa. Þetta er tvímælalaust meistaraverk. Hönnun framtíðarheimsins er ótrúlega flott og mikið af því hefur nánast orðið að raunveruleika, sérstaklega ef horft er til Asíu. Sagan er þétt og samtöl mjög vel skrifuð. Deckard er eitt besta hlutverk Harrison Ford og þetta er ein besta mynd Ridley Scott. Enn hefur spurningunni ekki verið svarað um það hvort að Deckard sé replicant, kannski fáum við þeirri spurningu svarað í framhaldinu.

„They don’t advertise for killers in the newspaper. That was my profession. Ex-cop. Ex-blade runner. Ex-killer.“

 

Leikstjóri: Ridley Scott (Alien, Gladiator, Kingdom of Heaven)