Stutta útgáfan: Dáleiðandi og áhrífarík upplifun sem er svo mögnuð að hún lyftir fyrri myndina einnig upp í gæðum. Besta mynd ársins hingað til og algjörlega framúrskarandi á allan hátt.

 

Langa útgáfan:

Er Blade Runner (1982) mynd sem virkilega þurfti á framhaldi að halda?
Efasemdir í garð nýju myndarinnar, Blade Runner 2049, eru mjög skiljanlegar og sérstaklega þegar myndin var fyrst tilkynnt. Síðan var Denis Villeneuve fenginn sem leikstjóri. Hampton Fancher, maðurinn á bakvið upprunalegu Blade Runner, var fenginn til að penna söguna. Ridley Scott tók sæti framleiðanda og Harrison Ford gekkst við því að stíga í hlutverk Rick Deckard, 30 árum eftir að karakterinn kom fyrst fram. Eftir endurkomu hans sem Indy og Han Solo kom það minnst á óvart. Þetta leit allt saman vel út á pappír en undirritaður hafði enn sínar efasemdir. Til að svara spurningunni… nei, Blade Runner þurfti ekki framhald en þetta “óþarfa” framhald er tvímælalaust – *trommuhljóð* – besta mynd ársins.

Framhöld sem koma mörgum árum síðar missa oft sjónar á því hvað gerði forvera sinn svo grípandi. Denis Villeneuve skilur Blade Runner betur en nokkur maður. Jafnvel betur en Ridley Scott. Það er eins og hann hafi andað að sér þessum heimi allt sitt líf, vitandi að einn daginn muni hann fá að tækla efnið. Þetta er leikstjóri sem hefur hrifið okkur með myndum á borð við Prisoners, Enemy og Arrival. Allt saman toppmyndir. Hérna hefur Denis þó meira til að vinna með. Stærra budget og stærri þemu.

Denis hefur lengi glímt við þemu sem snúa að margvíslegum hliðum mannkynsins. Grimmd mannsins í Prisoners. Ástarsambönd og valdleysið sem getur fylgt þeim í Enemy. Samskipti okkar í Arrival. Hver einasta mynd kemur að því hvað það þýðir að vera mennskur. Hvernig við flokkum okkur, innilokum og túlkum hluti á þann hátt sem hentar okkur. Með því að líta yfir fyrri kvikmyndir Denis sést nokkuð skýrt hvers vegna hann var maðurinn til að taka Blade Runner að sér. “Hvað er að vera mennskur?”, er fast í huga hans. Blade Runner heimurinn er hinn fullkomni vettvangur til að taka þá spurningu fyrir og jafnvel gerast svo djarfur að kasta fram svörum.

Denis og pennar myndarinnar passa sig á því að endurtaka ekki fyrstu myndina. Þetta er annar kafli í sama heimi. Ryan Gosling leikur K, sem vinnur hjá lögreglunni í Los Angeles sem Blade Runner, eins og Rick Deckard í fyrri myndinni. Þar lýkur samanburðinum. Mælt er með að sjá myndina með sem minnstu upplýsingum og því verður lítið meira sagt um söguþráðinn. Myndin kafar dýpra í starfið sem flest í því að vera Blade Runner en sú fyrri. Rannsóknarvinna og almenn lögreglustörf hjá K fá fínan skjátíma og er afar grípandi að fylgjast með þeirri ráðgátu.

Harrison Ford segist hafa lesið handritið og strax bent framleiðendum á Ryan Gosling fyrir hlutverkið K. Nema hvað, þeir höfðu löngu haft samband við Ryan og handritið var í raun skrifað með hann í huga. Það er engin furða enda smellpassar Ryan í hlutverkið. Örkin hans er mögnuð og fer á ansi óvænta staði. Þetta er mynd sem varpar fram risastórum pælingum og hugmyndum en kjarni myndarinnar er ávallt K. Ferðalagið hans, að utan sem innan, ber myndina uppi. Við fáum byrjun og endi á því ferðalagi sem veldur því að myndin geti staðið á eigin fótum. Það er hægt að sjá þessa án þess að horfa á fyrstu en undirritaður mælir ekki því.

Robin Wright, gersemið sem hún er, leikur yfirmann K. Grjóthörð persóna sem er góð í sínu starfi en, byggt á litlum vísbendingum, virðist eiga ófullnægjandi einkalíf. Sylvia Hoeks, lítt þekkt leikkona sem var í hinni mjög góðu The Best Offer, er frábær sem metnaðarfull eftirlíking (replicant) á hælum K. Það er erfitt að lýsa frammistöðu hennar sem annað en dáleiðandi. Jared Leto, einn hataðasti maður internetsins, á örfáar senur og flytur mónologa með mikilli prýði. Ana de Armas leikur hálfgerða kærustu K og fer létt með ansi krefjandi hlutverk. Allt saman mismunandi og útpældar persónur með mismunandi bakgrunn og já, mismunandi tegund.

Harrison Ford hefur brugðið mikið fyrir í markaðsherferð myndarinnar. Það er þó vert að taka fram að þáttaka hans í myndinni er afar takmörkuð. Það kemur ekki niður á myndinni enda er hann til staðar þegar á honum þarf að halda. Það er svo dýrmætt þegar Ford kemst í gírinn en hann hefur ekki verið betri í mörg ár. Það er sena nálægt endalokunum sem minnir mann á hversu góður og áhrifaríkur hann getur verið.

Umgjörðin á allri myndinni er best lýst sem epískt. Hver einasta manneskja sem kom að myndinni er best í sínu fagi. Risastórar leikmyndir hafa verið byggðar, afar smámunasamir búningar hannaðir og allt skotið á unaðslegan hátt af hinum mikla snilling, Roger Deakins. Eins og þúsundir hafa sagt áður, hvar er styttan hans! Hver einasta ákvörðun varðandi ramma, hreyfingu, lýsingu- byggist allt á sögunni og í nokkrum tilfellum, persónunum. Má þar helst nefna Wallace höfuðstöðvarnar. Jóhann Jóhansson hefur átt gott samstarf við leikstjórann en einhverra hluta vegna gekk það ekki upp hér. Hans Zimmer og Benjamin Wallfish tóku því yfir tónlistarstörf og slá ekki feilnótu. Andrúmsloftið, sem þeir bæði skapa eða setja áherslu á, dreifir sig yfir alla myndina og grípur mann alla leið.

Með von um að hljóma ekki tilgerðarlega, þetta er mynd sem minnir mann á að að kvikmyndagerð er listform. Myndin vill sér stóra hluti og tekst að koma áhorfendum í hugarfar persónanna sem búa í þessari niðurdrepandi en endalaust áhugaverðri framtíðarsýn. Hún tekur sinn tíma til að ná því markmiði og gæti sumum þótt hún langdregin en það er enga uppfyllingu að finna. Það þjónar allt tilgangi. Þrisvar kemur fyrir að línur sem komu áður fram dúkka upp aftur til að skýra hlutina. Þetta er eina sem þessum penna fannst örlítið vanhugsað þar sem það tekur frá krafti áhorfenda til að ræða myndina og komast að niðurstöðunni sjálf. Pínulítill galli sem kemst ekki nálægt því að draga myndina niður.

Þetta er listaverk og það þarf að sjá það á stærsta skjánum með besta hljóðkerfinu. Ef það er ein mynd sem þarf að sjá í bíó á þessu ári, þá er það Blade Runner 2049.