Taktu kvöldið frá, fimmtudaginn 22. júní – kl. 20 í Smárabíói. Þá verðum við með sérstaka forsýningu á nýjustu myndinni frá Edgar Wright, Baby Driver – í Dolby Atmos, tæpri viku fyrir frumsýningu, og sýnd án hlés.

Wright þarf varla að kynna fyrir hörðum kvikmyndaáhugamönnum og geiraunnendum með húmor, en á hans ferilskrá sitja Shaun of the Dead, Hot Fuzz, The World’s End og Scott Pilgrim vs. the World. Fyrir þá sem hafa ekki kynnt sér Baby Driver almennilega þá segir hún frá ungum og efnilegum strák sem kallar sig Baby (og er leikinn af Ansel Elgort), en hann gegnir því hættulega starfi að keyra glæpamenn burt frá vettvangi.

Baby er talinn vera besti ökumaðurinn í bransanum, sökum þess að hann leikur eftir eyranu – bókstaflega. Hann skipuleggur alla flótta sína í takt við „playlista“, en akkúrat þegar hann hittir draumastelpuna sína (Lily James) og íhugar að leggja glæpaferilinn til hliðar er hann neyddur í stórt verkefni sem gæti orðið hans síðasta. Bara ef vel gengur.

Með önnur hlutverk í myndinni fara Kevin Spacey, Jamie Foxx, Jon Bernthal, Eiza González og Jon Hamm.

Eins og margir eflaust vita snýst mikill hluti atburðarásarinnar í kringum tónlist (finna má playlistann hér). Þess vegna sakar ekki að hún er sérstaklega mixuð fyrir Atmos-hljóðkerfið, sem tilheyrir nýja S-max sal Smárabíós, ásamt breyttum sætaröðum og nýjum Flagship Laser 4k myndvarpa. Hermt er að aðeins 22 kvikmyndahús í Evrópu bjóði upp á sambærileg gæði og í þessum sal.

En að öllum flottu græjunum slepptum er þetta einfaldlega bíómynd sem þú vilt ekki missa af, og við mælum sérstaklega með því að njóta hennar án hlés. Það þarf varla að nefna það, en myndin hefur fengið frábæra dóma og situr að svo stöddu með 100% á Rotten Tomatoes og 8,6 í meðaleinkunn.

Miðasala er hafin, smellið hér!

 

 

EDGAR WRIGHT OG TÓNLISTIN

En, eins og nefnt var hér að ofan verður smá bíómiðaleikur líka og gætir þú átt séns á fríu boði ásamt tveimur gestum næstu vikuna.

Leikurinn er þægilega einfaldur og snýr að feril leikstjórans, en spurningarnar krefjast þess að viðkomandi svari eftir eigin smekk.

Spurningarnar eru þessar:

1. Hvað er ógleymanlegasta „músík mómentið“ í Edgar Wright mynd að þínu mati og hvers vegna?

2. Komdu með tvær „kvótanlegustu“ setningarnar sem þú mannst eftir úr Wright-mynd.

Svara má hér í kommentakerfinu fyrir neðan fréttina eða senda inn svar á netfangið tommi@biovefurinn.is.

 

Sjáumst í bíóinu.