Það að upplifa kvikmynd er ekki bara að setjast niður og horfa á hana. Það eru í raun margar breytur til staðar. Er mikill hávaði í kringum þig? Er síminn þinn að titra á fimm mínútna fresti? Er manneskjan við hliðin á þér kvartandi reglulega yfir því hvað henni þykir myndin leiðinleg? Bíóið hefur því aldrei verið jafn mikilvægt í dag.  Það býður upp á frið og ró sem er sjaldséð. Bíóið er líka langbesta kvikmyndalega upplifunin sem hefur sjaldan neikvæð áhrif á áhorfið.

Láttu mig í friði, takk

Í nútíma samfélagi er í raun alltaf eitthvað að angra okkur. Við erum aldrei í friði og eigum við örfá augnablik fyrir okkur sjálf, hvað þá þegar við erum að horfa á mynd. Það er hægt að setjast niður, slökkva ljósin, poppa og setja símann á silent. Hinsvegar gæti hundurinn í hverfinu byrjað að gelta stanslaust. Eða amma gamla gæti allt í einu bjallað í þig og fundið fyrir þeirri óskiljanlegu þörf að ræða um allt á milli himins og jarðar (en þú talar, því hver veit hvað hún á mikið eftir?).  Málið er að það eru óteljandi óútreiknanlegar breytur sem gætu truflað upplifun þína heima

Niðurhal er ekki staðgengill

Ég á voðalega erfitt með að skilja það þegar fólk neitar að fara í bíó af þeirri einföldu ástæðu að það getur downloadað myndum og horft á þær frítt heima. Þegar þú situr heima og horfir á niðurhalaða kvikmynd þá færðu einfaldlega ekki alla upplifunina, þetta er svipað og að hlusta á Dark Side of The Moon í 500 króna heyrnatólum sem þú keyptir í útsölukörfunni í Elko. Hljóðið er oft bjagað, myndin gæti verið dálítið blörruð og lítill texti sem segir „This is a copy blabla“ poppar reglulega upp á skjáinn. Því er mikilvægast að sjá myndina í aðstæðum sem að fólkið á bakvið myndina ætlaðist til þess að þú myndir sjá hana. Ef einhver notar niðurhals rökin gegn þér, þá máttu bjóða þeim að skrifa fyrir þig lítið ljóð. Taktu svo ljóðið, hræktu á það og strokaðu út eitt orð í hverri setningu. Svipuð upplifun.

„Tengdu Austin Powers við líffræðilegar þarfir – Gildir 5% af námseinkunn“

Oft á tímum skiptir það líka ótrúlega miklu máli hvar fólk sér myndina. Það að horfa á mynd t.d. í skólastofu getur minnkað gæðin á myndinni um meira en helming af algjörlega óskiljanlegri ástæðu (samt ekki). Það að tengja myndina við skólann, kennslu og óhjákvæmilega meðfylgjandi verkefnið drepur upplifunina hálfgert. Svo eru margir sem ákveða sjálfkrafa að myndin sé leiðinleg þar sem hún er notuð í kennslu. Þau henda töskunni bara á borðið, leggja hausinn á hana og halla augunum. Ég skil það vel að sofna í bíó, ég hef óvart gert það nokkrum sinnum, en örsjaldan gerir maður það viljandi. Það er líka ekkert jafn pirrandi og kennari sem stöðvar myndina reglulega til að spyrja hvort allir skilji ekki örugglega, og eyðir svo alltof miklum tíma í að tala um myndina.

Ekki láta skapið stjórna þér

Skap getur haft svakaleg áhrif á upplifun fólks. Ef það horfir á grínmynd í leiðinlegu skapi þá litar það oft getu þeirra til að hlæja og njóta sín yfir myndinni. Ég hef sjálfur lent í þessu og eflaust þú líka kæri lesandi. Hinsvegar þegar maður gengur inn í bíósal þá virðist sem huginn ákveði að fara í hlutlausa stillingu og leyfa myndinni að segja sína sögu, hvort sem hún sé góð eða ei. Gallar og kostir verða skírari og fólk litast ekki af umhverfi sínu. Þetta auðvitað virkar þó ekki ef að fólk er búið að mynda sér fyrirframákveðnar skoðanir um myndina byggða á auglýsingum og umfjöllunum, þannig að ég mæli eindreigið með því að það horfi og lesi það með gagnrýnum augum.

Auðvitað er þó ekki hægt að segja að bíóið sé fullkomið. Það eru nokkrir hlutir sem geta farið í taugarnar á manni, eins og t.d. sætasparkarar, spjallarar, símafíklar og hlé. En ef við miðum bíóið við allar aðrar leiðir til að njóta góðrar kvikmyndar þá á bíóið sér engan sambærilegan valkost. Besta hljóðið, bestu myndgæðin, frábær leðursæti (Gillz) og almennt skemmtilegt andrúmsloft.