Í Facebook-grúppunni Bíófíklar myndast oft líflegar umræður um allt mögulegt. Þegar ákveðið var aðeins að þreyfa á púlsi hópsins um hvaða myndir hafa borið af á árinu hingað til var mikið um sömu titla. Kannski er það merki um slæmt framboð hingað til eða í raun og veru merki um hágæði þeirra mynda sem notendur völdu.

Kíkjum á og sjáum hvað yfir 50 einstaklingar kusu.

 

5. WONDER WOMAN

Ofurhetjugeirinn hefur verið að gera það sérlega gott þetta árið, með bæði fjölbreyttum titlum og nýstárlegum nálgunum. Wonder Woman virðist ekki einungis vera umhugsunarlaust besta DC myndin til þessa (þó samkeppnin sé mjög dapur…), heldur ein af betri afþreyingum sumarsins samkvæmt almenningsálitinu. Gal Gadot tekur sig vel út í titilhlutverkinu og virtist hafa sigrað hjörtu margra, bæði ein á báti og í samleik sínum við Chris Pine.

Til gaman má geta að mjööög stutt hafi verið á milli Wonder Woman og Guardians of the Galaxy Vol. 2 í kosningunum.
Diana rétt náði yfirhöndinni.

 

4. BABY DRIVER

Edgar Wright klikkar ekki, og þessi einstaka og útpælda músík-hasarmynd gæti skipað sér í hóp þeirra albestu frá manninum. Ansel Elgort er flottur með heyrnartólin og restin af liðinu skilur eitthvað kostulegt eftir sig. Lagalistinn smellur að sjálfsögðu líka, rómansinn er dúllulegur og bílaatriðin, mar. Bílaatriðin!

 

3. DUNKIRK

Nýjasta epíkin frá Christopher Nolan lét sig ekki vanta í upptalningum margra, enda flestir sammála um að myndin sé tæknilegt meistaraverk og sennilega öflugasta sjónarspil sumarsins. Hvort hún sé meistaraverk í skilningi heildarpakkans eða „bara“ mjög góð er eitthvað sem mikið hefur verið deilt um. En ljóst er þó að Dunkirk hefur verið að senda flesta alsátta út úr bíóinu – og að öllum líkindum enn með suð í eyranu eftir bombastísku og trylltu tónlist meistarans Hans Zimmer.

 

2. GET OUT

Sennilega óvæntasta perla ársins, og þá frá grínaranum Jordan Peele, sem masterar hér stórskemmtilega grín-hrollvekju. Með hnyttið handrit, flotta leikara og æðislega súra framvindu verður Get Out fljótlega að afþreyingu sem gleymist seint. Stálhresst dæmi um hvernig hægt er að gera trausta mainstream-hryllingsmynd án þess að þurfa að skilja brandarana eftir heima.

 

1. LOGAN

Svanasöngur Jarfa þar sem Hugh Jackman hefur aldrei verið betri, brotnari eða áhrifaríkari í hlutverkinu. Logan sýnir að ofurhetjumyndir geta leyft sér að vera alls konar hlutir; í þessu tilfelli brútal, lágstemmd karakterstúdía í vestrafíling… þar sem vill svo til að einhverjar persónurnar búi yfir kröftum. En James Mangold hitti aldeilis í mark með þriðju Wolverine-myndinni, sem stendur bæði sjálfstætt og bindir frábæran endapunkt á stærri X-Men söguna. Stórbrotið stöff, og tær sigurvegari þegar kemur að topplista fólks fyrir árið. Líklegt þykir að Logan verði einnig eitthvað áberandi í uppgjöri fólks í kringum áramótin.

Og vonandi eitthvað þegar Óskar frændi fer að banka að dyrum.

 

Aðrar nefndar:

Guardians of the Galaxy Vol. 2

War for the Planet of the Apes

T2 Trainspotting

Ég man þig

La La Land

Toni Erdmann

Elle