Þegar það er verið að tala um spennumyndir (alvarlegar eða kómískar) frá ’80s tímabilinu finnst mér margir gleyma að telja upp Beverly Hills Cop. Hún hefur það sem kvikmyndir frá þessu tímabili eiga að hafa sem er að taka sig aldrei of alvarlega. Í staðinn fyrir að vera of alvarleg eins og margar myndir nú af dögum þá ertu að fá meira af skemmtilegum karakterum og nóg af húmór sem blandast vel inn í allan hasarinn.

Beverly Hills Cop er mjög einföld í sínum söguþræði, það er ekki slæmur hlutur, en hún fjallar um lögreglumanninn Axel Foley sem óhlýðnast yfirmanni sínum og fer til Los Angeles til að leysa morð vinar síns. Á meðan hann er að leysa morðgátuna kynnist hann skemmtilegum karakterum sem hjálpa honum á þeirra einstaka máta að leysa morð vinar hans.

Beverly Hills Cop er einfaldlega þrusufín afþreying; hnyttin, rugluð og eldist prýðilega í eitís-búbblunni sinni. Myndin hjálpaði Eddie Murphy svo sannarlega að komast hærra á stjörnuhiminn og einnig var hún tilnefnd til Óskarsverðlauna fyrir handritsskrif. Þannig að ef fólk er að leita að léttri en fjörugri og fyndinni spennumynd til að drepa tímann mæli ég með að fólk skelli þessari í tækið eða finni hana á einhverri sjónvarpsveitu.

Mæli einnig með nr. 2, fyrstu mynd Tonys Scott.

Þrjú má eiga sig.