Síðan að 21. öldin rann í garð hefur ferill leikstjórans Terry Gilliam gengið í gegnum einkennilega þróun. Hann skapaði sér sess í kvikmyndasögunni með hugmyndaríkum og kolsvörtum fantasíum sem snérust alltaf um bullandi veruleikaflótta; í sambland við áberandi satírur í garð yfirgnæfandi skrifstofuvelda. Þessi sömu einkenni móta ennþá myndirnar hans í dag, en eitthvað hefur klikkað við aldamótin. Eitthvað týnt og aldrei aftur fundið, sem orskaðaði það hann hefur ekki skilað frá sér góðri kvikmynd í hátt í 16 ár. Hvað hefur glatast?

Gilliam-2Ég vil byrja á því að segja að það sem fylgir í þessari grein er aðeins rannsókn eins manns á áhugaverðum ferli hugmyndaríks leikstjóra. Það sem ég kalla hér góða eða slæma kvikmynd er ákveðin alhæfing til að þjóna stærri tilgangi greinarinnar: Ég er ekki hér til að segja hvert gæðagildi hverrar myndar er, heldur vildi ég reyna að finna samstöðu í vandamálum Gilliam og vonandi skapa stærra samhengi.

Þegar litið er á feril Gilliam er það strax ljóst hversu mikið dálæti hann hefur af því að hópa myndirnar sínar saman í þríleiki. Í fyrstu starfaði hann sem sjónrænn teiknari, en hann hóf leikstjóra ferilinn á áttunda áratugnum með fyrsta hluta Monty Python-myndabálksins, The Holy Grail, og fylgdi henni eftir með hálfgerðu frændsystkinaverkefni; Jabberwocky. Hún var hans fyrsta mynd sem alsráðandi leikstjóri, en hann hélt sig engu að síður nálægt bæði vinnuaðferð og heildar hugfræði Holy Grail. Einkenni leikstjórans komu því fyrst upp á yfirborðið með tilveru næstu myndar hans, Time Bandits, árið 1981. Hún markar bæði fæðingu Gilliam sem auteur-leikstjóra og stendur sem fyrsti kafli Imagination-þríleiksins. Eftir fylgdu Brazil og The Adventures of Baron Munchausen til að klára þrennuna.
Saman féllu þær undir þemað um að sleppa frá leiðindum hversdagslífsins með tilkomu töfraveraldar sem táknaði drauma og vonir aðalpersónunnar.

Gilliam-3Síðan tók tíundi áratugurinn við, sem boðaði inn næstu þrennu; titluð Americana-þríleikurinn. Hún innihélt The Fisher King, 12 Monkeys og Fear and Loathing in Las Vegas, en þemað sem hélt um myndirnar var þveröfugt í þetta skiptið: Nú var veraldarflóttinn hlekkjaður við blákaldan raunveruleika myndanna og álitinn einstaklega slæmur fyrir heilsu aðalpersónunnar.
Eftir langt bil á milli kvikmynda og mikla baráttu við stúdíó-kerfin snéri Gilliam aftur árið 2005 með The Brothers Grimm og Tideland. Hann hélt áfram ótrauður að setja upp verkefni, sem féllu flest á andlitið, þangað til að fjórum árum síðar hófst að gera myndina The Imaginarium of Doctor Parnassus. Nýjasta myndin hans The Zero Theorem, sem fór í gegnum auðveldasta tökutímabil á ferli Gilliam, leit hljóðlega dagsins ljós í fyrra og hefur smám saman fengið víðari dreifingu í ár.

En hvað með þríleikinn? Hvar er þematíkin sem heldur utan myndirnar? Gæti það verið svarið við vandanum? Myndir sem fljóta stefnulaust um með ekkert akkeri; blindur Gilliam?

Það hljómar strax eins og smjörþefurinn af safaríkri niðurstöðu; að maðurinn viti ekki lengur undir hvaða flaggi skal sigla myndunum sínum, og jafnvel framtíð ferilsins í heild sinni. Það var þangað til að ég rakst á einkennilega hraðahindrun: Við útkomu Zero Theorem vildi Gilliam meina að hún markaði síðasta kaflann í vísindarskáldskaps-þríleik, titlaður Orwellian triptych, en á undan henni voru 12 Monkeys og Brazil.
Á einu andartaki hafði öllu kerfinu verið raskað, nú standa tvær holur í Imagination- og Americana-þríleikjunum. Gilliam var þó fljótur að laga það, enda sagði hann árið 2009 að Doctor Parnassus ætti nú heima meðal Imagination-myndanna; sem passar fullkomlega. Hins vegar hefur hann aldrei talað frekar um Americana-myndirnar, og leit ég því á myndirnar sem voru afgangs og fann strax púslið sem vantaði: Tideland. Hún passaði meira að segja betur inn í skilgreiningu þríleiksins heldur en 12 Monkeys á sínum tíma.
Og með því höfum við í höndunum þrjá hreina þríleiki og eina myndin sem situr eftir óskilgreind er Brothers Grimm; sem, að mínu mati, hljómar rétt, enda langmestu afskipti stúdíósins af henni og að sögn eina myndin sem Gilliam er ekki fullkomlega sáttur við útkomuna.

Gilliam-6Nú rennur það upp fyrir manni að þessi safaríki smjörþefur leyddi inn í botnlanga götu, þar sem fjarvera þematískrar heildar er greinilega ekki vandinn. Hvað nú? Ef vandinn liggur ekki í myndunum, ætli hann liggi hjá manninum?

Það er áhugaverð opnun á DVD-disk Tideland sem ég hef seint getað gleymt: Terry Gilliam tekur sér nokkrar mínútur áður en myndin hefst til að segja þér, áhorfandanum, að til þess að njóta hennar til fulls þarftu að gleyma öllu sem þú veist sem fullorðinn einstaklingur. Að þú þarft að hverfa aftur til æskunnar og líta á framvindu Tideland í gegnum augu barns. Sú pæling er góð og gild, og Gilliam lét heiminn vita á sínum tíma að honum fyndist gagnrýnendur og flestir eldri áhorfendur misskilja myndina, en það er þó einn hængur: Leiðbeiningarnar til að njóta myndarinnar passa ekki við sjálfa myndina. Gilliam talar um sakleysi og heimssýn barnanna, en myndin virðist ávallt hafa meiri áhuga á eldra fólkinu; hún er alltaf að hnippa í þig og spyrja: “Er þetta ekki súrt?”
Því fór ég að hugsa, ætli hann viti ekki lengur hvernig myndirnar hans komast til skila í augum áhorfenda?

Við örlítið innlit í þessa pælingu fór mynstur að myndast; eitthvað sem fylgdi ávallt á eftir útgáfu nýrrar myndar frá manninum á 21. öldinni. Hann kýs í hvert skipti að virða skoðanir yngri áhorfenda mest, og á sama tíma virðast yngri áhorfendur taka best á móti honum. Jafnvel í köldu og grimmu hugarástandi Zero Theorem segir Gilliam að yngstu notendur internetsins taki myndina mest á sig. Hlið mynstursins sem ég hafði þó mestan áhuga á var ekki tengd unga fólkinu, enda er þetta ekki nýr markaðshópur fyrir manninn, heldur voru það eldri áhorfendur. Áður fyrr sameinuðust yngri og eldri kynslóðir í virðingu fyrir ímyndurnarafli Gilliam, en eftir aldamótin hafa þeir eldri snúist gegn honum.

Þarna var kominn múrveggur. Hvað var það við 21. aldar Gilliam sem fór svona illa í eldri kynslóðir? Er niðurstaðan, eftir allt saman, að hann er hreinlega farinn að vinna með slæm handrit og slæm vinnubrögð? Eru einöngruðu gallar hverrar myndar virkilega, óheppilega, það sem heldur áfram að plaga manninn?
Ef svo er, er niðurstaðan í raun að henda höndunum upp í loft og segja einfaldlega “Hann er bara orðinn lélegur!” Það er alls ekki endapunktur sem mér líkar, og hreinlega algjör andstæða við tilgang greinarinnar til að byrja með.

Ég leit á þessa einföldu galla með smásjá en varð ekkert ágengt. Já, myndirnar eru með ójafnt handrit, oft með ódýrt útlit, óvissa stefnu o.s.f.v. en þetta er eitthvað sem hefur verið greitt yfir með mun meiri athygli í flestum gagnrýnum sem hafa verið birtar fyrir hverja 21. aldar mynd Gilliam. Botnlangi.
Gilliam-4Því, með þennan múrvegg fyrir framan mig og sokkinn ofan í ákveðið volæði, ákvað ég að henda mér aftur til betri daga Gilliam og horfa á Time Bandits. Það var á ákveðnum tímapunkti þar sem aðalpersónurnar voru eltar af ófreskjum með satanískar höfuðkúpur, þar sem ég hló upphátt um leið og þær birtust. Þetta voru augljóslega nokkrir aukaleikarar í stórum kuflum með beinagrind yfir, en ég hló ekki að þeim, heldur var þetta hlátur skemmtunar. Senan var spennandi og ég vildi ekki sjá aðalpersónurnar í hættu, en samtímis hafði ákveðið virðingarfullt mat verið í gangi í gegnum alla myndina á útliti og vinnuaðferð hennar sem ég hafði svo gaman af. Eftir örfáar sekúndur stoppaði ég sjálfan mig og myndina, eldingu laust niður: Er þetta svarið? Voru þessir kuflklæddu vitleysingar búnir að leysa vandann?

Eins og rúllandi snjóbolti fór allt að smella saman og lausnin hafði verið að stara á mig allan þennan tíma með sínum hlaupskenndu og dauðu augum: Tölvubrellurnar. Í fyrstu hljómaði það eins og þreytt kvörtun, en því meira sem ég starði á móti, því meira gekk það upp. Þetta sem hafði sameinað yngri og eldri kynslóðir áður en var nú farið, það sem nelgdi Gilliam niður í kvikmyndasöguna sem sjónrænn og hugmyndaríkur leikstjóri var beint fyrir framan alla til að njóta. Það var nánast áþreifanlegt hversu mikil vinna hafði farið í hverja framleiðslu fyrir aldamótin, þrátt fyrir endalausa baráttu við stúdíóin hafði Gilliam trekk í trekk skapað töfrandi heima með blóði, svita og tárum. Í smástund voru þessir heimar til. Það sem meira er, það skapaðist bein lína frá áhorfandanum yfir í ástríðu Gilliam fyrir kvikmyndaforminu sem orð geta varla lýst. Í nokkra tíma í senn, sáum við í gegnum augu mannsins.

Gilliam-5Leiðinlegi sannleikurinn er þó sá að strax frá upphafi var Gilliam kominn á braut sem myndi leiða hingað. Endalausu stríðin við framleiðendur gerðu það að verkum að hann neyðist annaðhvort til að liggja undir járnhæl við gerð á stórri Hollywood-mynd, eða vinna út fyrir kassann og neyðast því til að notast við ódýr vinnubrögð. Faglegi kvikmyndaheimurinn er ekki eins góður við villta og ótemjandi menn og hann var eitt sinn.
Því endum við með leiðarstyttingu fyrir Gilliam í formi tölvubrella sem gera honum kleift að láta myndirnar sínar líta dagsins ljós eins og hann vill hafa þær. En fórnin er sú að þessi beintenging í hjarta mannsins hefur verið rofin og þeir sem eldri eru sitja uppi með blendinga sem eru á hálfleið á milli tölvuteiknimynda og praktískra kvikmynda; en ná hvorugu myndforminu til fulls. Gilliam orðaði þetta jafnvel best sjálfur þegar hann talaði um tölvubrellur áður en hann notaðist við þær sjálfur:

“Allir eru svo spenntir, en teiknaðar hreyfimyndir eru allt fyrir mér. Núna er verið að taka kvikmyndir sem ættu að vera fullar af fólki sem hugsar, andar, eru gallaðar verur, og það er reynt að stjórna öllum augnablikum þess. Fyrir mér er þetta hreinlega dauði. Dauði kvikmynda.”

Í raun er niðurstaða vandans þá sjálfur Tíminn. Landslag iðnaðarins er komið á þann stað þar sem Gilliam er of mikil áhætta fyrir stóru stúdíóin, en ekki nógu hófsamur fyrir þau litlu. Vonandi mun gullinn farvegur myndast eftir einhver ár, en hvort hinn sjötugi Gilliam fær tækifæri til að ganga eftir honum kemur í ljós.
Hvað sem framtíðin ber með sér fyrir Terry Gilliam, þá mun hann halda ótrauður áfram og jafnvel er hann að tala um að gera teiknimynd í fullri lengd; hver veit, kannski bíður hans Edengarður í formi teiknimynda.

_