Klipparinn Elísabet Ronaldsdóttir hefur stækkað heilmikið við sig þegar kemur að erlendum verkefnum undanfarin ár, en hún hefur verið að klippa stórvinsælar myndir á borð við Contraband, John Wick og núna síðast Atomic Blonde. Næsta verkefni Elísabetar er engin önnur en bíómyndin Deadpool 2 sem beðið er eftir með mikilli eftirvæntingu.

Bíóvefurinn hafði samband við þessa bráðkláru fagkonu til að kanna hver Fimman hennar væri, með auknu tilliti til þess hvaða klippivinnur hafa staðið sérstaklega upp úr.
Beta fær orðið:

„Það er mér næst ómögulegt að velja uppáhalds kvikmyndir. Hvert ár í kvikmyndasögunni hefur haft eitthvað að bjóða uppá. Hér er þó listi af myndum sem hafa haft áhrif á mig og ég á til með að horfa á aftur og aftur.“

 

Blade Runner (1982)

Í leikstjórn Ridley Scott og klippt af Marsha Nakashima

„Þetta var eina kvikmyndin sem hún klippti og svo gufaði hún barasta upp. Mér hefur ekki tekist að komast að því hvað varð um Marsha. Kannski gafst hún uppá karlaveldinu, gifti sig, dó… ef einhver veit, endilega látið mig vita. Blade Runner fékk ekkert sérstaklega góðar móttökur frá gagnrýnendum, var kölluð „Blade Crawler“ og talin innantóm skel þar sem engin tenging myndaðist við karaktera. Í dag keppast allir við að pissa í snilldarverks-bollann. Svona geta gagnrýnendur stundum haft rangt fyrir sér, sérstaklega þegar formið sem allir þekkja er brotið upp. Ég man hvað ég var upprifin þegar ég labbaði útúr bíóinu 17 ára gömul.“

 

Piano (1993)

Í leikstjórn Jane Campion og klippt af Veroniku Jenet

„Campion hefur aldrei gert mynd sem mér þykir ekki áhugaverð. Ada, túlkuð með eftirminnilegum hætti af Holly Hunter, sem fékk Óskarinn fyrir, er kona sem getur ekki talað, í samskiptum við mann sem getur ekki hlustað. Myndin skartar, að mínu mati, kynþokkafyllstu senu kvikmyndasögunnar sem tengist gati á sokkabuxum.“

 

Memento (2000)

Í leikstjórn Christophers Nolan og klippt af Dody Dorn

„Dody Dorn framkvæmir hér algjört kraftaverk. Fólk hefur verið að dunda sér við að klippa myndina saman í rétta röð, sem sagt afturábak, en komist að því að vinnslan er flóknari en svo. Circa helmingurinn af sögunni er í réttri tímaröð en hinn aftur á bak og virkar þetta líka súper vel. Tær snilld og eina kvikmyndaklippið sem ég finn til öfundar yfir. Sem betur fer ekkert of alvarlegt og Dody veit af því.“

 

Kill Bill: Vol. 1 (2003)

Í leikstjórn Tarrantino og klippt af Sally Menke

„Ég fæ ekki nóg af The Bride og O-Ren Ishii, finnst þær með eftirminnilegustu karakterum kvikmyndasögunnar. Mér finnst ekki verra að myndin er eins og femínískt manifestó þar sem allar kvenpersónunar eru að díla við afleiðingar, og að hefna, heimilisofbeldis og/eða misnotkunar. Eftir að Menke lést, allt of snemma, finnst mér Tarantino hafa misst vissan sjálfsaga í frásögninni.“

 

Hannah Arendt (2013)

Í leikstjórn Margarethe von Trotta og klippt af Bettina Böhler – sem er margverðlaunaður klippari

„Ein af þessum kvikmyndum sem mér finnst að fólk eigi að horfa á, allavega einu sinni á ári. Boðskapurinn er mikilvægur. Sama hvað okkur finnst persónulega um myndina finnst mér fyndnast hvað það fór illa í suma gagnrýnendur hvað Arendt var mikið að hugsa í kvikmyndinni…“

 

„….Og svo horfi ég alltaf reglulega á Idiocracy (2006) – gamanmyndin sem breyttist í heimildarmynd, en listinn er orðinn of langur þó margar fleiri myndir komi upp í hugann.“