1975-1995 er mikið gullaldartímabil í sögu kvikmynda og kvikmyndir frá þessu tímabili eiga margt yfir myndir sem koma út í dag. Eitt það helsta verandi kvikmyndatónlistin, mér finnst vera agalegur skortur af eftirminnilegum kvikmyndatónlistarverkum í kvikmyndum nú til dags. Það er mjög sjaldgæft að ég heyri tónlist sem ég man eftir eða vekur einhverjar tilfinningar í mér. Það er enginn skortur af hæfileikum né tónlistarmönnum en einhvern veginn finnst mér eins og kvikmyndatónlistin hafi tekið skref í leiðinlega átt, en mögulega er þetta bara nostalgíu kjaftæði í mér. Hérna er að minnsta kosti listi af tíu þekktum kvikmyndum sem voru með stórkostlega tónlist sem fengu litla sem enga viðurkenningu á sínum tíma. Það er nóg að velja úr svo slatti af myndum komust ekki á listann.

Hér eru:

Eftirminnileg 80’s kvikmyndatónlistarverk sem fengu talsvert minni viðurkenningu en þau áttu skilið á sínum tíma.

 

10) The Running Man (1987) – Harold Faltermeyer

Harold Faltermeyer var þekkt nafn á sínum tíma. Helst þekktur fyrir að semja Beverly Hills Cop tónlistina og fullt af öðrum myndum. Hann hefur hinsvegar fjarað út í frægð en semur ennþá fyrir kvikmyndir, þá nýlegast fyrir The Martian. Því miður var tónlistin í þeirri mynd alveg hrikalega óeftirminnileg fyrir utan Space Oddity eftir Bowie sem telst auðvitað ekki með. The Running Man hefur mjög retró hljóm í sér sem virkar mjög vel fyrir myndina en ég gæti ekki talið soundtrakkið vera einhverja argandi snilld þrátt fyrir að vera eftirminnanleg eftirminnileg.

 

9) The Living Daylights (1987) – John Barry

John Barry er snillingur og samdi nánast einungis meistaraverk eftir meistaraverk í marga áratugi. Hann er með myndir eins og Dances With Wolves, The Lion In Winter, Chaplin og helling af James Bond myndum. The Living Daylights er seinasta Bond myndin sem hann samdi fyrir og að mínu mati hans langbesta verk þegar að James Bond kom. Þetta er einnig myndin sem kynnti hann Timothy Dalton sem James Bond sem er einnig besti Bondinn að mínu mati. Í stað þess að reiða algerlega á klassíska Bond stefið þá gerir hann eitthvað nýtt með það og bætir smá 1980’s brag og það virkar vel.

 

8) The Thing (1982) – Ennio Morricone

Ég held að allir sannir bíófíklar kannast við tónlistina úr The Thing en ég held að ekki allir viti þá staðreynd að Morricone fékk Razzie tilnefningu fyrir tónlistina!? Þarf lítið að útskýra af hverju þessi er á listanum, tónlistin er kannski einföld og lágstemmd en mjög áhrifarík og eftirminnileg og hefur veitt ég veit ekki hver mörgum kvikmyndum innblástur.

 

7) Rocky IV – Vince DiCola (og aðrir)

Rocky IV er alger froða síns tíma en hún er dásamleg froða. Vince DiCola gefur myndinni mikið kick með synth tónlistinni en í raun eru það aðrir artistar sem gefa myndinni meiri orku en hann. Lög eins og Heart’s On Fire eftir John Cafferty, No Easy Way Out eftir Robert Tepper og Livin’ In America eftir James Brown. Myndin er ekkert nema training montage senur með sveittri 80’s tónlist undir og það gefur myndnni mikinn sjarma. Popp tónlistin í myndinni varð fremur vinsæl en tónlistin eftir DiCola var grafin fremur hratt. Ég get ekki gefið Vince DiCola allt kredit fyrir þessa en þetta er ein sveittasta notkun á popular 80’s tónlist fyrir kvikmynd. Eins og Ennio þá fékk Vince Razzie tilnefningu, segir margt um Razzie verðlaunin.

 

6) Commando (1985) – James Horner

James Horner er annað þekkt nafn í iðnaðinum og átti sér langan feril þar til hann lést árið 2015 í flugslysi. Hann samdi fyrir Star Trek myndir, The Name Of The Rose, Braveheart, Titanic og sjittloads af myndum. Hann hafði þann kæk að endurnýta sína eigin tónlist og fékk mikla gagnrýni fyrir það á sínum tíma. Commando er engin undantekning, hann tók tónlistina sem hann samdi fyrir 48 Hrs. (1982) og fékk sér nokkrar línu af kókaíni og spilaði hana upp á nýtt og afraksturinn er Commando tónlistin. Myndin sjálf er einhver kjánalegasta en jafnframt skemmtilegasta 80’s hasarmynd allra tíma og tónlistin er svakalega hörð og gefur myndinni mikið afl þrátt fyrir að vera ögn einhæf.

 

5) Prince Of Darkness (1987) – John Carpenter & Alan Howarth

John Carpenter er með gott eyra fyrir tónlist og hann veit fullkomlega hvaða hljómar passa best við eigin myndir. Prince of Darkness er fremur gleymd og vanmetin í dag. Hrollvekja sem blandar saman vísindum og trúarbrögðum á áhugaverðan hátt og þökk sé tónlistinni að miklum hluta þá er hún býsna áhrifarík hrollvekja.

 

4) Bloodsport (1988) – Paul Hertzog

Paul Hertzog er löngu hættur að semja fyrir kvikmyndir og gerði aðeins örfáar myndir á sínum tíma. Hans besta verk var án efa Bloodsport en því miður fékk maðurinn enga viðurkenningu fyrir hana. Myndin sjálf er alveg dúndur skemmtileg og tónlistin hjá Hertzog bætir hana heilmikið. Tónlistin er nánast einungis synthesized en maðurinn kann svo sannarlega að gera það vel.

 

3) Dune (1984) – Toto

Dune er ein af þessum stórmerkilegu kvikmyndum. Margir hata hana en margir elska hana, persónulega hallast ég meira að ástinni. Þrátt fyrir alla sína galla þá finnst mér að David Lynch náði að skapa eitthvað einstakt eins og hann á til að gera. Áhugavert val að fá Toto til að semja tónlistina, fyrir þá sem kannast ekki við Toto þá sömdu þeir sígilda 80’s lagið Africa og voru frekar vinsælir fyrir 30 árum síðan. Ég myndi hinsvegar segja að þeirra besta verk sé tónlistin í Dune. Sagan fjallar um voða framandi sci-fi pælingar og gerist 25.000 ár í framtíðinni annars staðar í vetrarbrautinni en tónlistin smellpassar og gefur myndinni mjög sterkt andrúmsloft.

 

2) The Bounty (1984) – Vangelis

Vangelis er enn annar risi í kvikmyndatónlistinni. Hann er synthesizer meistari og goðsögn í tónlistargeiranum. Af hverju þessi mynd fékk engar viðurkenningar fyrir tónlistina finnst mér algerlega óskiljanlegt. Hann samdi auðvitað einnig Blade Runner og 1492: Conquest of Paradise en fékk einungis viðurkenningar fyrir Chariots of Fire sem gæti mögulega verið hans versta og klisjukenndasta tónlistarverk. Allt í lagi tónlist en ekkert spes miðað við Vangelis. The Bounty er líklega hans besta tónlist og myndin sjálf var og er gífurlega vanmetin.

1) Conan The Barbarian (1982) – Basil Poledouris

Sama hvað þér finnst um Conan The Barbarian þá er þetta besta tónlistarverk sem hefur nokkurn tímann verið samið fyrir kvikmynd. Basil Poledouris lést fyrir 10 árum síðan en hann átti sér mörg eftirminnileg verk eins og Robocop (1987) og Starship Troopers (1997). Tónlistin átti skilið öll helstu tónlistarverðlaun sem hún hefði getað fengið en fékk einungis eina eða tvær tilnefningar hjá minni verðlaunaflokkum sem enginn almennur áhorfandi myndi kannast við. Conan The Barbarian er alltaf í fyrsta sæti hjá mér yfirbestu kvikmyndatónlist, engin önnur kvikmynd hefur jafn öfluga, hráa og epíska tónlist og Conan The Barbarian. Lord Of The Rings, Harry Potter, Star Wars og allt það er bara barnaefni í samanburði. Gífurlega vanmetin tónlist á sínum tíma en sem betur fer á soundtrakkið mjög marga aðdáendur í dag.