Þá er enn eitt kvikmyndaárið að baki og má líta björtum augum til þess næsta. En eins og sönnum kvikmyndaáhuga fylgir er nauðsynlegt fyrir hvern og einn að setjast niður, gera upp árið og velja uppáhöldin, sem er nákvæmlega það sem pennarnir hér að neðan hafa gert. Og við hvetjum ykkur til þess að gera það sama!

Eftirtaldir listar miðast við myndir sem höfundar sáu árið 2017 og eru titlarnir eingöngu frá því ári. Ekki er notast við frumsýningar á klakanum og því var ekki í boði að nefna t.d. myndir eins og La La Land, Moonlight, Elle eða Toni Erdmann.

Átta álitsgjafar fá orðið.
Fyrstur er…

 


Atli Sigurjónsson – kvikmyndagerðarmaður

10. Logan Lucky
Velkominn aftur, Steven Soderbergh! Eins konar “Hillbilly Ocean’s Eleven” sem gerir kannski smá grín að smábæjarfólki en ber samt líka virðingu fyrir þeim. Umframt allt er hún snjöll og fyndin, með góðri fléttu og brillerandi casti. Svo tekst Soderbergh meira að segja að láta lagið “Take me Home, Country Roads” hreyfa við manni, lag sem maður hélt að allir bar-trúbadorar heimsins væru löngu búnir að eyðileggja.

9.  Faces Places
Agnes Varda er elsti núlifandi leikstjórinn úr frönsku nýbylgjunni og þrátt fyrir að vera næstum níræð er hún ennþá í fullu fjöri. Hér gerir hún persónulega og sjálfmeðvitaða heimildamynd sem er hugljúf, fyndin og bráðskemmtileg. Og Agnes sjálf er yndisleg í henni.

8. The Florida Project
Hér er á ferðinni mjög ljúfsár saga um mörkin á milli einfalds veruleika barns og erfiðs veruleika fullorðinna. Sumir neita að fullorðnast, sumir eiga langt í land og sumir eru of mikið að reyna. Willem Dafoe fer á kostum sem líklega “venjulegasti” karakter sem hann hefur nokkurn tíma leikið.

7. Three Billboards Outside Ebbing, Missouri
Sumum finnst þessi mynd gera grín að smábæjarkönum, en ég sé það ekki. Ég sé bara bráðfyndna, snjalla og stórskemmtilega hugvekju um það að menn eigi ekki að láta reiðina taka yfir, sama hversu slæmir hlutirnir verða, og menn eigi bara ekki að vera fífl (ekki vera rasisti, ekki lemja fólk að óþörfu, og svo frv.). Svo inniheldur hún líklega besta cast ársins!

6.  The Salesman
Asgar Farhadi er einn færasti dramaleikstjóri nútímans og þó að The Salesman sé kannski ekki alveg jafn sterk og A Separation er hún engu að síður frekar magnað stykki. Hún heldur manni allan tímann þrátt fyrir mjög einfalda sögu, sem hljómar kannski ekki mjög spennandi á pappír en svínvirkar.

5. Star Wars: The Last Jedi
The Force Awakens var mjög “safe” mynd en eins góð og hægt var að vera miðað við það”. Hér eru teknar áhættur og niðurstaðan er önnur stórskemmtileg SW mynd sem er furðu umdeild. Mér fannst þörf á að hrista upp í þessari seríu og sé ekki vandamálið. Þessir púritana-nördar mega fokka sér því myndin er barasta stórfín, þó auðvitað megi hnýta í einhver smáatriði. Allt sem skiptir máli virkar vel og ég hlakka til að sjá hvað kemur næst. Hvíl í friði, Carrie!

4. The Meyerowitz Stories (New and Selected)
Kannski ekki besta mynd Noah Baumbach en hann stendur samt alltaf fyrir sínu og tekst hér meira að segja að láta Adam Sandler leika vel! Sagan er svo sem ekkert ný af nálinni en Baumbach leikur sér skemmtilega með formið. Karakterarnir eru æðislegir, leikararnir brillera og myndin er full af viskumolum og skemmtilegri sérvisku. Meira þarf ekki.

3. Wormwood
Heimildamyndir þurfa ekki bara að vera talandi hausar og gamalt fréttaefni, þær geta verið listilega skotnar, leikið sér með formið og brotið mörkin um hvað telst vera heimildamynd. Myndir Errol Morris eru frábær dæmi um það og Wormwood er enn ein rósin í hnappagatið hans. Mögnuð mynd sem fléttir saman samsæri, spillingu, sorglega fjölskyldusögu, sálfræði og LSD í frábæran 4 tíma pakka (í raun netflix mini-sería en var gefin út í bíó líka í USA og telst því með hérna).

2. Lady Bird
Sterk, áhrifamikil og oft bráðfyndin “coming-of-age” saga frá Gretu Gerwig sem sýnir að hún er litlu síðri leikstjóri en leikkona, og líka skarpur penni. Þetta er svona mynd sem læðist smám saman aftan að manni, smá brokkgeng í byrjun en í lokin er maður snortinn. Saoirse Ronan á öll verðlaun skilið en Laurie Metcalf og leikritaskáldið Tracy Letts eru engu síðri sem foreldrar hennar.

1. mother!

Líklega umdeildasta mynd ársins, en fyrir mér er þessi mynd Darren Aronofsky snilldar metafóra um þjáninguna sem felst í því að vera listamaður sem og að vera maki listamanns. En hún er líka metafóra um ofsatrú, gróðurhúsaáhrifin og fleira. Og líka bara ógeðslega fyndin, og óhugnaleg, og klikkuð og bara…allt! Í stuttu máli er þetta mynd sem gefur hugtakinu “tilfinningaleg rússibanareið” nýja merkingu.

 


Birgir Snær Hjaltasonsölumaður, hasarfíkill

10. John Wick: Chapter 2
Þessi kvikmynd vá, hún gerir algjörlega það sama og Raid 2, byggir upp heiminn ásamt því að gera allt stærra og klikkaðra. Besta hasarmynd 2017, staðfest og skjalfest.

9. mother!
Þetta er kvikmyndin á mínum lista sem margir munu vera ósammála með. mother! er eitthvað sem ég sat í mér í langan tíma og ég átti mjög margar og djúpar samræður um.

8. Get Out
Kolsvört grínhrollvekja frá Jordan Peele sem nær algjörlega því sem er í gangi í menningarheimi Bandaríkjamanna í dag.

7. Baby Driver
Edgar Wright og Hollywood peningar haldast saman í hendur eins og Coca-Cola og Prins Polo. Baby Driver er mynd sem þorir að fara sínar eigin leiðir og er ekkert að biðjast afsökunar á því.

6. Logan
Svanasöngur Hugh Jackman sem Wolverine slær á alla hjartastrengi. Hún er hröð, svöl, hörð og hjartnæm. Takk fyrir 17 árin Hugh.

5. Wind River
Enn og aftur sýnir Taylor Sheridan (Sicario og Hell or High Water) hvað hann getur gert með því að taka gamlar klisjur og setja nýjan vinkil á þær. Köld og hæg kvikmynd sem fólk þarf að kíkja á.

4. Dunkirk
Seinni heimsstyrjaldarmynd frá „King“ Nolan sem sýnir ákveðna atburðarás úr stríðinu frá þremur hliðum. Enn og aftur kvikmyndalegt meistaraverk frá Nolan.

3. War for the Planet of the Apes
Kvikmynd sem því miður ekki nógu margir sáu. Sýnir á marga vegu hinar verstu hliðar mannkynsins og hvað við erum sjálfseyðingaglöð.

2. Three Billboards outside Ebbing, Missouri
Átakanleg mynd um hvað manneskja myndi gera eftir nauðgun og morð dóttur sinnar. Leikstjórinn nær að gera myndina fyndna og átakanlega á sama tíma, eitthvað sem margir myndu ekki ná að gera.

1. Blade Runner 2049

Framhald sem nær bæði að gefa aðdáendum klassíska hluti sem það þekkti úr gömlu sögunni ásamt því að byggja ofaná hana. Frábær kvikmynd að öllu leyti.

 


Heimir Bjarnason kvikmyndagerðarmaður, penni

10. American Made
Tom Cruise í líflegum gír ásamt ótrúlegri sögu gera þessa að einum óvæntasta smelli ársins. Einnig má hér finna skemmtilegustu kvikmyndatöku og klippingu ársins að mati undirritaðs.

9. Get Out
Mynd sem verður bara betri með hverju áhorfi. Jordan Peele leikur sér að væntingum sem fylgja hryllingsgeiranum og flytur góða samfélagsádeilu í leiðinni. Props á það.

8. Star Wars: The Last Jedi
Það tók ekki langan tíma fyrir þessa að verða ein umdeildasta mynd seríunnar. Umræddir gallar eru þó agnarsmáir en þetta er öðruvísi Star Wars sem þorir að snúa upp á myþólogíuna. Mistök gerast, hetjudáðir reynast heimskulegar og loks er ekki allt hvítt og svart.

7. Logan
Hrátt karakter-drama í vestrafíling með nóg af blóði – þvílíkur svanasöngur sem þetta er! Hugh Jackman hefur eignað sér hlutverk Wolverine seinustu 17 ár og nær að enda það með bestu myndinni um Jarfa.

6. Undir trénu
Kolsvart gaman-drama um nágrannaerjur í sjötta sæti? Já, hún er bara það góð. Þétt handrit og gott samspil gerir það að verkum auk leynivopnsins mikla: Eddu fokking Björgvins.

5. War for the Planet of the Apes
Gott dæmi um þríleik sem græðir tilfinningalegt gildi með hverri mynd í stað þess að vera innantóm peningamaskína. Hjartnæmur og nokkuð brútal (miðað við PG-13) endaleikur í óvæntasta þríleik síðari ára.

4. The Killing of a Sacred Deer
Colin Farrell og Yorgos Lanthimos þurfa að gera myndir saman það sem eftir er. Prakkalegur snúningur á grískum harmleik sem hélt mér órólegum út myndina ásamt því að vera bráðfyndinn.

3. mother!
Allir koma með sína túlkun á þessari og ætli þær séu ekki allar réttar. Algjör in-your-face kvikmynd sem setur sér engar hömlur. Líklegast besta frammistaða J-Law ásamt geðveikri Michelle Pfeiffer.

2. Dunkirk
Þetta er rússíbani ársins. Mynd sem setur þig beint í stríðið og gefur ekkert eftir. Þriggja laga söguaðferðin virkar vel og gefur manni gott yfirlit af hverju einasta horni þessara merku sögu.

1. Blade Runner 2049

“Ónauðsynlegt” framhald er besta mynd ársins. Eftir smá meltingu getur undirritaður einnig sagt að hún fari fram úr forvera sínum. Þetta er mynd sem tekur mann í risa ferðalag, bæði innra með aðalpersónunni og í heiminum sjálfum. Skylduáhorf fyrir alla áhugamenn góðra mynda.


Hildur María Friðriksdóttir – jarðeðlisfræðingur, hljóðbókalesari, ritstjóri

10. Guardians of the Galaxy Vol. 2
2017 er óumdeilanlega ár framhaldsmyndanna, en við fengum hvert gæða-framhaldið á fætur öðru (Höskuldarviðvörun: Það eru fjórar framhaldsmyndir á þessum lista). Verndara-gengið er alveg jafn fyndið og skemmtilegt og síðast og tónlistin engu síðri heldur. Ég hef aldrei séð neinn kalla aðra persónu ljóta á jafn hjartnæman hátt og Drax gerir í þessari mynd.

9. Atomic Blonde
Átti erfitt með að ákveða hvort ég vildi vera aðalpersónan Lorraine Broughton, stela fataskápnum hennar eða sofa hjá henni – líklegast allt þrennt. Hún minnir á John Wick, en er á vissan hátt enn svalari. Góð og frábærlega stílíseruð njósnasaga með geggjuðum bardagasenum (ekki biðja Lorraine um að opna fyrir ykkur vínfösku, henni er ekki treystandi með upptakara).

8. Baby Driver
Hér fáum við samspil hljóðs og myndar eins og það hefur aldrei sést áður. Nammi fyrir augu og eyru. Hápunkturinn er skotbardagi þar sem hver einasta hreyfing, skot og sprenging er í takt við lagið Tequila.

7. Reynir sterki
Mynd um mann sem ég vissi ekkert um og hafði engan áhuga á sem náði einhvernvegin að verða ein af betri íslensku myndunum sem ég hef séð… og það heimildamynd! Eins áhugaverða ævi og Reynir sterki hafði, þá er það fólkið í kringum hann sem er það áhugaverðasta við hann og við fáum sem betur fer góðan skammt af þeim. Baldvin Z fær mikið hrós fyrir það að ná öllu þessu ótrúlega myndefni.

6. War for the Planet of the Apes
Hápunktur epíkurinnar um Ceasar og apabálkinn hans og jafnframt sú besta af myndunum þremur. Marglaga og hjartnæm kvikmynd sem á sér margar hliðstæður í stríðum raunveruleikans og fær mann til að spyrja sig að stóru spurningum lífsins.

5. Undir trénu
Í ár fengum við nýja íslenska klassík. Hún er ekki um kynferðisofbeldi, fjölskylduharmleik eða fátækt, enda fengum við öll drepleið á slíkum sögum á meðan við vorum í vöggunni. Í staðinn sjáum við hóp af vitleysingjum og misskilninga þeirra á milli sem hægt væri að leysa á einfaldan hátt ef allir væru ekki svona þrjóskir. Sótsvört kómedía sem gengur lengra en þú áttir nokkurntíma von á.

4. Okja
Með umdeildustu myndum ársins, ásamt mother! enda er auðvelt að túlka kvikmyndina sem áróður gegn kjötiðnaði, sem stuðar marga. Það sem þeim aðilum yfirsést þó oftast er að myndin gerir ekki bara grín að stóriðju og kjötiðnaði, heldur gerir hún grín að bókstaflega öllu og öllum, líka dýravelferðasinnum. Það er það sem Okja er fyrst og fremst, fyndin. Fólk má túlka skilaboð hennar eins og því hentar, en það breytir því ekki að Okja er gullfalleg mynd.

3. Logan
Það kemur svo sem ekki á óvart að óhefðbundnasta “fjölskyldumynd” ársins sé Logan, því í raun er þetta einfaldlega mynd um feðgin sem fara í langa bílferð. Jiminn eini samt hvað hún er hjartnæm og ristir djúpt. Engar áhyggur, það er blóð í henni og nóg af því.

2. Three Billboards Outside Ebbing, Missouri
Eftir að hafa séð fyrri verk leikstjórans, Martin McDonagh, bjóst ég við svartri kómedíu sem myndi snúa upprunalegum væntingum á hvolf og það gerði þessi mynd svo sannarlega. Hans besta hingað til. Allar persónurnar eru marglaga skíthælar sem innst inni eru góðar manneskjur að reyna að gera rétt. Svona eins og fólk í alvöru, bara fyndnara.

1. T2 Trainspotting

Það versta sem framhaldsmyndir geta gert er að vera nákvæmt afrit af fyrstu myndinni. T2 fjallar nefnilega um sömu óþroskuðu fjórmenningana og fyrsta myndin, sem, þrátt fyrir að 20 ár hafi liðið, virðast ekkert hafa breyst. Mark hleypur enn frá lífinu, Spud er aumkunarverður fíkill, Sick Boy óforskammaður glæpamaður og Begbie geðsjúklingur sem best væri geymdur inni á stofnun. Þrátt fyrir þetta nær myndin að forðast þessa gryfju. Það sem við fáum í staðinn er einstaklega góð og hugljúf þroskasaga sem er drepfyndin á köflum. Hún er alveg jafn vitlaus og fyrsta myndin, en nær líka að vera fullorðinslegri og vandaðri, sem er góður hlutur. Myndin gæti ekki verið betur heppnuð og er fullkomið framhald af klassík.

 


Hörður Fannar Clausen penni, gagrýnandi, gott hjarta

10. Good Time
Eirðarlaus og manísk á sömu bylgjulengd og borgin sem hún þekur í eltingarleiknum. Nýjasta mynd Safdie bræðranna er þeirra fínpússaðasta til þessa. Það er ekki að segja að viðfangsefnið sé nokkuð léttvægara en í fyrri myndunum þeirra, en klárt er að leikstjóratvíeykið á bjarta framtíð fyrir sér. Hún inniheldur engar morðvélar úr framtíðinni, en Good Time er besta Terminator myndin síðan 1991.

9. Transformers: The Last Knight
Svanasöngur Michael Bay með Transformers seríunni er mögulega hans besta mynd til þessa. Leyfðu hálfeldaða Dan Brown plottinu að svífa í bakgrunninum og týndu þér í hámarki stórmyndabrasksins þar til aðeins sitja eftir ljós, hreyfing og hljómar. Kvikmyndinni er ýtt svo langt á hinn endann að hún snýr aftur að rótum sínum.

8. mother!
Kaosið í þriðja hluta Titanic síað í gegnum Polanski, Biblíuna og martraðalógík. Lawrence hefur toppað. Pfeiffer er gyðja.

7. Logan Lucky
Oceans mynd í verkamannastíl. Hjátrúarfullir suðurríkjalubbar, sprengjuglaður Daniel Craig og sígildir tónar John Denver hífa Soderbergh aftur á „vanmetna meistara“-stigið.

6. Song to Song
Terry og Chivo á tónlistarhátíð. Meira var það ekki.

5. Hjartasteinn
Guðmundur Arnar sækir í Malick til að finna miðpunkt nostalgíu og sannleika. Kraftaverk í íslenskri kvikmyndagerð.

4. John Wick Chapter 2
För „baba-yega“ um undirheimana tekur skemmtilegt „meta“ konsept fyrri myndarinnar upp á verðlaunapall nútíma hasarmynda. Ekki oft sem við fáum mynd af þessum kaliber drjúpandi í gotneskum og miþískum undirtónum, með beinar vitnanir í Buster Keaton og John Carpenter til að toppa. Crème de la crème.

3. The Lost City of Z
James Gray með enn eina felluna. Hjarta myrkursins er ljósið fyrir suma.

2. Resident Evil: The Final Chapter
Anderson endar uppvakninga/hasar seríuna sem hann byrjaði með ástarbréfi til eiginkonu sinnar og dóttur. Hjartnæm, gotnesk og sláandi.

1. Split

Pólitík hryllingsmynda beruð, reglum pölp-spennutrylla raskað og ofurmennið upplýst bæði sem skúrkurinn og hetjan. Flóknasta mynd M. Night Shyamalan til þessa. Hvernig hann nær sífellt að þróa sig og toppa, þrátt fyrir að endurtaka í grunnin ítrekað sömu spekina, er mér alveg ofar. „Rejoice“

 


Róbert Keshishzadeh – kvikmyndagerðarmaður

10. The Bad Batch
Skrýtin og hægbrennandi vímuför um bakenda Texas-ríkis í samfélagi þar sem allar reglur eru á bak og burt. Leikstýran Ana Lily Amirpour fer með okkur í gegnum næturklúbba og eyðimerkur í hálfgerðum trans þar sem vöðvastæltar mannætur og mellupoppaðir djammhundar reyna að finna sér samastað í heimi sem á sér enga framtíð. Svo sakar ekki að hafa Keanu Reeves sem Playboy dópbarón.

9. Star Wars: The Last Jedi
Nýjasti kaflinn í stjörnustríðinu kveikti aldeilis bál meðal aðdáenda, en það er einmitt það sem gerir þetta að einni framsæknustu kvikmynd ársins; óhrædd um að ryðja sinn eigin veg og bjóða áhorfendum í leiðinni upp á spennandi og tilfinningaríkt ævintýri. Hún sýndi fram á að gamlir hundar geta lært ný trikk og að serían er tilbúin að færa sig á nýjar og spennandi slóðir. Í grunninn reyndist þetta einnig vera áhrifamikið framhald af kjarnasögunni sem verið er að segja, og setur upp spennandi lokakafla.

8. Get Out
Jordan Peele reiddi fram girnilegan graut af samfélagsrýni og spennutrylli snemma á árinu, sem sat í manni á meðan mánuðirnir liðu hjá. Það að Get Out beini spjótum sínum að nútímanum er aðdáunarvert og algjör bónus; sem myndi ekki þýða neitt ef grunnmyndin væri ekki granítharður þriller með kolsvörtum húmor sem neglir bæði trekk í trekk. Plús, hún inniheldur eina ástsælustu aukapersónu síðustu ára.

7. Dunkirk
Með nýjustu kvikmynd sinni stækkaði Christopher Nolan ekki aðeins umfang sögunnar, heldur hnitmiðaði hann tímarammann niður í hárfínar hundrað mínútur sem halda manni á brúninni við hvert skref. Síðan, með hjálp frá þeim fáu samtölum sem eru í myndinni, málar Nolan hverja persónu upp sem táknmynd sinnar stéttar í hernum; og skapar þannig andrúmsloft sem endurspeglar aðgerðina við strendur Dunkirk-eyjunnar í heild sinni, frekar en för einstaks hermanns. Stríð hefur aldrei virkað jafn víðáttumikið og þráðbeint á sama tíma.

6. Baby Driver
Nýjasta spíttinngjöfin frá Edgar Wright sýnir fram á að hjónaband tónlistar og myndefnis, sem hann hefur sérhæft sig í, hefur aðeins orðið sterkara í gegnum árin. Baby Driver tæklar hefðbundna rómantíska glæpasögu af lífi og sál sem sést sjaldan í nútíma kvikmyndum. Vinnan sem var lögð í hvert smáatriði og hverja nótu verður bara áhrifameiri með hverju áhorfinu.

5. Three Billboards Outside Ebbing, Missouri
Það er alltaf tilhlökkunarefni að fá nýja sögu frá Martin McDonagh þar sem búast má við ferskum persónum, kolsvörtum húmor og einstökum handritsstrútkúr. Three Billboards færir okkur þetta allt og svo mun meira, en hún nær að færa hverjum karakter nýja hlið og bætir við gráum skuggum við hvert tækifæri. Húmorinn er oftast á barmi harmleiks og framvindan kemur sífellt á óvart án þess að nýta sér hefðbundnar sveiflur eða opinberanir. Einlægt og kjaftfort smábæjardrama sem situr lengi í manni.

4. Super Dark Times
Unglingaþriller á næsta plani. Framvinda Super Dark Times er alls ekki að finna aftur upp hjólið, en hryggjaliður myndarinnar er grípandi uppvaxtarsaga vina sem upplifa blákaldan veruleika á sama tíma og ábyrgðir framtíðarinnar læðast að þeim. Sagan er heilsteypt og virkar fyrir það sem hún er, en sjaldan hef ég séð jafn vel ráðna leikara í hlutverk sem þeir eigna sér svo algjörlega. Það eru gullfalleg augnablik út myndina. Dæmin sem hún gefur okkur um leiktilþrif, blokkeringu, tökustíl og klippingu hafa festst í minninu og sjá til þess að Super Dark Times sé allt annað en grunnhyggið unglingamelódrama.

3. Blade Runner 2049
Aldrei hefði ég trúað því að eftir allt saman yrði framhaldið af Blade Runner ein besta kvikmynd ársins. Sagan bauð upp á svo mörg feilspor í tilraun til að fylla upp í fótspor forverans, en þótt ótrúlegt sé náði Blade Runner 2049 að forðast allar holur og reyndist vera ferskt innlit í heim sem fjölmargar kvikmyndir hafa apað eftir í gegnum árin. Vélmennin voru með meðaumkunarlegustu persónum ársins án þess að svíkja hvorki veröldina sem byggð var í kringum né söguna sem sögð var fyrir nokkrum áratugum; og andrúmsloftið sem liggur yfir myndinni drekkir öllu í einkennilegri blöndu melankólíu og vonar.

2. Logan
Allt það lof sem hægt er að hella yfir Logan kemst ekki fyrir í svona lítilli klausu, því þetta er myndin sem okkur vantaði. Ekki aðeins náði hún að kveðja ristastóra fígúru í nútíma kvikmyndum af fágun og fegurð, heldur náði hún einnig að virka sem náttúruleg kaflaskipti í þróun ofurhetjumynda, algjört niðurrif og allsherjar krufning. Í kjölfarið varð myndin hrá og grimm með algjöru vonleysi sem er ótrúlegt að verða vitni að innan stóru kvikmyndaveranna í dag. Algjört kraftaverk er kannski þá besta súmmeringin.

1. mother!

Eftir því sem mun líða á árin verður Logan líklegast mér ofar í huga, en hvað þennan lista varðar get ég ekki neitað þeim áhrifum sem ég varð fyrir við að upplifa mother! í fyrsta skipti (og skiptin eftir það). Það þarf svo sem ekki að eyða of mörgum orðum í það; hún er einfaldlega ísköld gusa í andlitið af óstöðvandi framvindu ofan í dimma kanínuholu sem hættir ekki að sjokkera, með huglægri myndtöku og óþægilega þrúgandi hljóðheimi. Það er heilmikið rými til að lesa úr henni mismunandi allegoríur og túlkanir, en burtséð frá því er þetta bara einstaklega grípandi kvikmyndaupplifun sem kveikir á öllum taugaendum.

 


Sigga Clausen penni, Disney-sérfræðingur, alltaf í boltanum

10. Baby Driver
Svo, svo kúl.

9. Wonder Woman
Hvort sem þú telur síðasta þriðjunginn kaótískan eða ekki þá þetta flott ofurhetjumynd með mörgum vel teknum og flottum atriðum. Gal Gadot á þetta ofurhetjuár!

8. Dunkirk
„VÁ!“ mynd ársins. Vona innilega að þið hafið náð þessari í bíó. Krafturinn verður aldrei hinn sami heima í stofu.

7. IT
Mér er ekki vel við trúða en er samt ekki hrædd við þá. En ég er hrædd við IT. Fokking Bill Skårsgard og tækniteymi þessarar myndar náði að bregða mér tvisvar á meðan myndinni stóð og hélt mér spenntri nánast frá byrjun til enda.

6. Thor: Ragnarök
Ekkert drama og bara grín. Já, ef til vill Disneylegasta Marvel myndin til þessa en það sleppur þar sem við erum að fá buddy-feel-good-mynd sem við getum horft á aftur og aftur. Ekki skemmir fyrir að illmennið er meiriháttar.

5. Blade Runner 2049
Hún er svo falleg….. þarf ég að segja meira?

4. Guardians of the Galaxy Vol. 2
Allar myndir með Daddy issues sitja í mér. Þessi er samt frábrugðin að því leyti að hún talar beint til mín. Tilfinningar allra persónanna snerta hjartataugarnar en gleðja mann samt svo innilega með góðum tímasetningum og hárfínum bröndurum.

3. Star Wars: The Last Jedi
Já, ég tel þessa Star Wars mynd eiga heima með bestu myndum ársins þar sem hún gerði það sem allir óskuðu eftir í fyrstu en kvörtuðu yfir í þessari. Breytingar. Vissulega fellur hún í sumar klisjur en það sem hún gerir hins vegar er að ryðja veginn fyrir nýja framtíð í stað einhverrar endurtekningar. Flott eintak.

2. mother!
Nokkuð viss um að ef þú googlar Mother þá koma stafirnir WTF á eftir sem suggestion. En já, þó maður hugsi eftir myndina WTF þá geturðu ekki annað en hugsað sífellt meira um myndina og hvað hún táknar og túlkað hana eftir eigin höfði. Hún heldur fast í þig og sleppir seint…. jafnvel aldrei.

1. Logan

Blóð gerir margt betra og sýnir Logan okkur það á grimmilega hreinskilinn hátt. Myndin lokar sögu hans á næstum fullkomna vegu og nú þarf bara að venjast því að Hugh Jackman sé búinn að hengja upp klærnar.

 


Tómas Valgeirssonbíórýnir, klippari, ritstjóri

10. The Killing of a Sacred Deer
Svört, skondin og grípandi út í gegn. Samsetningin jaðrar við smámunasemi á leveli meistara Kubricks, frá handriti til andrúmslofts. Geggjað stöff.

9. Lady Bird
Vel skrifuð, sjarmerandi og hressileg sneið af hversdagsleikanum. Ronan er helbert æði.

8. Raw
Frumleg, ljót en æðislega fyndin og prakkaraleg þroskasaga um erfiðleikana sem fylgja því að “fitta inn”. Þessi sat í mér.

7. The Shape of Water
Besta mynd Del Toro síðan Pan’s Labyrinth (þótt það segi raunverulega ekki mikið). Hugsa má um þetta sem brútal, leikna Disney mynd… fyrir fullorðna. Sally Hawkins er dásamleg, kjarnaþráðurinn undarlega hugljúfur og allir aukaleikarar og hliðarpersónur skilja eitthvað eftir sig.

6. Baby Driver
Ólöglega skemmtileg og hnyttin afþreying sem lyftist á efra plan með tónlistinni og samsetningu í takt. Baby Driver er ein af öflugri orkusprautum ársins og leikararnir eru allir hressir. Allir.

5. Logan
Algjör skepna, þessi mynd. Graníthörð að utan en býr yfir ómótstæðilegri sál að innanverðu. Sjálfstætt standandi karakterdrama í vestrastíl með ofurhetjukryddi, en meira gefandi ef þú hefur fylgt Hugh Jackman og X-Men seríunni. Heilagur andskoti hvað augu mín svitnuðu.

4. War for the Planet of the Apes
Hollywood mynd sem tekur sénsa. Hún setur persónur og (skítþunglynda) narratífu í forgrunn fram yfir hasar og sjónarspil. Þetta er eymdarlegt prísundar- og stríðsdrama dulbúið sem blockbuster-mynd. Stórkostlegur endir á einn óvæntasta þríleik síðustu ára. Vel renderaðar persónur, gott drama, hörkuleikur frá Serkis og sjónræn frásögn af hæsta kalíberi.

3. mother!
Allt og eldhúsvaskurinn með. ‘mother!’ er algjört pönk. Ég fíla hvað hún er rugluð og drukknandi í trylltri sýnimennsku, en allt með góðum punkti og heljarinnar rússíbana gegnum tilfinningar og martraðir.

2. Blade Runner 2049
Framhald sem enginn bað um. Kemur svo í ljós eitt bitastæðasta sci-fi stykki okkar tíma. Og absolút flottasta mynd ársins. OG betri en originalinn. Hvernig gerðist þetta??

1. Three Billboards Outside Ebbing, Missouri

Snilldar handrit, æðislegur leikhópur og ófyrirsjáanleg framvinda sem skoðar nýja vinkla á hinu kunnuglega. Myndin snýr út úr formúlum og væntingum við hvert tækifæri án þess að fórna taumhaldinu á firnasterkri sögu. Drepfyndin, laumulega marglaga og grípandi mynd, sú besta frá leikstjóra sem hingað til hefur staðið vel fyrir sínu.

 

 

Nú þegar sú scroll-veisla er búin, þá spyrjum við: Hvaða kvikmyndir stóðu upp úr að þínu mati?