… sem eru án sci-fi elementa.
(annars yrðum við hér í allan dag)

Tíundi áratugurinn var mikil gullöld fyrir heilalausar og/eða fjarstæðukenndar hasarmyndir, á tímum þar sem allt var gert fyrir framan tökuvélarnar og tölvubrellur ekki enn komnar á skrið í því magni sem þau eru í dag. Áður en ofurhetjur og músík-vídeó stíll var farinn að yfirtaka allt snérist geirinn að miklu leyti um brjálaðar dauðatölur, hnyttna frasa, blæðandi ‘kúl’ og oftar en ekki löggur að bjarga heiminum eða einkalífi sínu – stundum hvort tveggja.

 

The Last Boy Scout (1991)

Þessa mynd má kalla eins konar draumaverkefni hjá handritshöfundinum (sem síðar varð leikstjóri) Shane Black. Hann vildi gera verulega dökka ‘buddy-cop’ mynd í anda Lethal Weapon, sem hann skrifaði einnig. The Last Boy Scout fór ekki í gegnum auðvelt framleiðsluferli; stúdíóinu þótti handritið vera of grimmt og var því breytt, en leikstjóri myndarinnar, Tony Scott, sagði að upprunalega handritið hafi verið með þeim betri sem hann hafði lesið. Aðalleikararnir, Bruce Willis og Damon Wayns, þoldu heldur ekki hvorn annan og voru tökurnar erfiðar. Allt samt kom ekki að sök og fengu áhorfendur á endanum verulega góða hasarmynd fyrir sinn skilding. Myndin er hlaðin skemmtilegum samræðum og one-linerum og hvaða hatur sem ríkti á milli þeirra Willis og Wayans hefur einungis betrumbætt stemninguna.

 

Hard Boiled (1992)

Áður en John Woo var farinn að missa sig í drasli á borð við Windtalkers og Paycheck hafði hann fótfest sig sem einhver öflugasti hasarleikstjóri allra tíma, og myndin sem innsiglaði það fyrir mörgum var að sjálfsögðu Hard Boiled. Woo var maðurinn sem gerði það almennilega að kúl-trademark’i að vera vopnaður ekki aðeins einni, heldur tveimur skammbyssum á meðan hetjan hjólar í óþokka í slow-mo eða annars konar kaótík. The Killer stráði saltið fyrir komandi getu leikstjórans, en Hard Boiled er tilkomumesta og öflugasta mynd mannsins án efa. Það er ástæða fyrir því að nafn hennar kom svo oft upp í dómum á The Raid myndunum seinna meir. Þessi hefur allt!

 

Under Siege (1992)

Under Siege er kvikmynd sem margir tala um sem eina góða myndin frá Steven Seagal. Það er góð ástæða fyrir því, enda inniheldur hún nóg af klassískum einkennum ’90s hasarmynda: sprengingar, haug af dauðum skúrkum og töffaratakta. Svo má að sjálfsögðu ekki gleyma aðalillmenninu sem leikið er af Tommy Lee Jones. Meistari Seagal leikur kokk á herskipi sem hefur meira í pokahorninu og þegar hópur illmenna yfirtekur skipið neyðist kokkurinn til að bjarga deginum og stöðva ráðabruggin áður en kvöldinu lýkur. „Die Hard í skipi“ væri hentug lýsing, en skemmtanagildi myndarinnar stendur alltaf fyrir sínu.

 

True Lies (1994)

Eftir að hafa gefið út einu bestu sci-fi hasar(-og framhalds-)mynd allra tíma, Terminator 2, fékk James Cameron sjálfan Ahnuld aftur til liðs með sér til að gefa okkur bráðskemmtilega og hressa ræmu sem fjallar um ofurspæjara sem þarf að stoppa hryðjuverkasamtök – og um leið bjarga hjónabandinu sínu. Það hljómar eins og erfiðasta verk heims en ef einhver getur gert það er það Arnoldinn sjálfur. Stórar sprengingar, flottir eltingaleikir og eftirminnilegir karakterar, ef þetta hljómar eins og eitthvað að þínu skapi þá fyllir True Lies í helstu tékkboxin. Jamie Lee Curtis og Bill Paxton heitinn bæta líka miklu við þessa Schwarzenegger-veislu.

 

Die Hard with A Vengeance (1995)

Þegar kom í ljós hvað margir voru ósáttir með Die Hard 2 (sem undirrituðum þykir voða vanmetin) var ákveðið að hrista til í formúlunni. Nú var John McClane ekki lengur fastur á einum stað og óheppinn á jólunum, heldur fékk hann tækifærið til að eltast við glæpamenn um alla New York borg. Í Die Hard with a Vengeance er Bruce Willis enn í bullandi stuði en hann fær heilmikinn stuðning frá skemmtilegum aukakarakterum, leiknum af Samuel L. Jackson og Jeremy Irons. Hasar og húmor einkenndi báðar fyrri myndirnar en með þessari var ákveðið að auka magnið á hvoru tveggja. Það verður seint leiðinlegt að fylgjast með Willis og Jackson leysa þrautir hrottans Simon og keyrslan, í bland við allt fjörið, tryggir henni öruggan sess í þessa upptalningu.

 

Hin heilaga Keanu Reeves-hasartvenna.

Point Break (1991) og Speed (1994)

Það er ekki sama hvert þú setur Keanu Reeves, en ef þú finnur rétta hlutverkið er með ólíkindum hvað maðurinn getur bæði skemmt manni og gefið sig allan fram í hasarnum (John Wick, einhver?). Án Point Break væri líklegast engin The Fast and the Furious, en í þessari mynd þarf Reeves, í hltuverki FBI-löggu, að smygla sér inn í hóp brimbrettagarpa. Patrick Swayze er höfuðpaurinn í glæpagenginu sem myndar einstakt bond við lögguna góðu.

Point Break er að vísu ekki eins fókuseruð á hasarsenur og sprengjur eins og flestar aðrar myndir á þessum lista, en hún setur persónurnar í forgrunninn og leikstýran Kathryn Bigelow masterar góða uppbyggingu og skilar þrælfínni afþreyingu úr þessu öllu.

 

Hér er Keanu Reeves aftur kominn í lögguhlutverkið. Skemmst er að segja frá því að Speed er einfaldlega snargeggjuð og dúndurskemmtileg hasarmynd. Keyrslan er meiriháttar og þú finnur varla fyrir þessum tveimur tímum sem hjá líða. Sandra Bullock kemur einnig þarna sterk inn og Dennis Hopper skilur fullt eftir sig í hlutverki sprengjuóðs skúrks sem reynir eins og hann getur til að halda Reeves í hreðjataki. Keanu smellpassar í þessa ýktu rússíbanareið og score’ið sér líka til þess að trekkja aðeins upp púlsinn.

Að lokum…

Nic Cage-þríleikurinn mikli !

 

The Rock (1996)

Einu sinni var sú tíð þegar Michael Bay var á meðal mest spennandi kvikmyndagerðarmanna sem starfaði í hasargeiranum, áður en hann fór að tapa sér í endurtekningum, plebbahúmor, hernaðarrúnki og vélmennum í slagsmálum. The Rock býður annars vegar upp á það besta sem þú getur fengið frá Bay. Hér höfum við öfluga keyrslu, tens spennuuppbyggingu, gott samspil milli karaktera og ánægjulega yfirdrifna framvindu sem er skotin og klippt af absolút fagmennsku (og tónlistin, mar!).

Fram að þessum tímapunkti höfðu fáir litið á Nic Cage sem mikla hasarhetju, en hér tekst honum ásamt sjálfum Sean Connery að sýna hversu mikið býr í honum. Cage og Connery mynda dásamlegt dúó – og Ed Harris gefur okkur frábæran andstæðing. Magnað samt hvað Cage er óvenjulega lágstemmdur miðað við það að vera staddur í Michael Bay-mynd! En við dýrkum hann.

Það er bara ekki hægt að lýsa myndinni öðruvísi en að þú heldur með góðu köllunum og vilt sjá þá ná markmiði sínu. Ef Bay hefði að jafnaði tekist að gera eins velheppnaðar myndir og The Rock oftar, þá væri ábyggilega ekki í dag eins vinsælt og freistandi að gera grín að manninum.

 

Con Air (1997)

Núna kemur sú spennumynd með Cage sem er annaðhvort elskuð eða svo hötuð fyrir sína galla að meira segja John Malkovich er búinn að afneita myndinni, þótt persónulega finnst mér hann búinn að leika í verri myndum. Con Air fjallar um hermann (Cage) sem drepur mann í sjálfsvörn, lendir í fangelsi og er síðan settur í flugvél með hinum verstu glæpamönnum bandaríkjanna í flugvél, hvað er það versta sem gæti gerst? Þetta er söguþráður myndarinnar og síðan eins og kemur fram að ofann muntu annaðhvort hata hana eða elska hana eins og með þennan suðurríkjahreim sem Cage er með í myndinni. Þannig ef vinahópurinn vill drekka bjór og horfa á algjörlega heilalausa skemmtun þá verður Con Air að verða fyrir valinu.

 

Face/Off (1997)

Meistari John Woo var algjörlega í sérflokki á tíunda áratugnum og beitti fagmennsku sem margir aðrir reyndu að jafna. Það er erfitt að biðja um yfirdrifnari mynd þegar þú hnoðar saman verki frá Woo með tveimur af skrautlegri ofleikurunum í bransanum í aðalhlutverkum. Í Face Off leikur Cage ofurýktan hryðjuverkarmann sem er eltur af lögreglumanni, leikinn af John Travolta. Eftir að karakter Cage er handsamaður þarf karakter Travolta að fá andlit hans lánað til að bjarga stórborg frá risasprengju. Face Off er yndislega brengluð og stílíseruð og hreint magnað að leikararnir nái að halda andliti (tíh*), en það virkar og þú færð svo fjarstæðukennda og ofur-dramatíska mynd að þú getur ekki annað en dást af henni og fílað hverju sekúndu af henni.

 

RUNNER UP:

Executive Decision (1996)

Enn eitt „Die Hard afritið“, þar sem hinn hversdagslegi maður þarf að bjarga deginum – í flugvél í háaloftunum – frá hryðjuverkamönnum. Kurt Russell fær þarna að sýna aftur hversu mikill harðjaxl hann getur verið og fær meira að segja nokkur Steven Seagal að koma fram í stóru aukahlutverki. Öll þau frumleikastig sem Executive Decision missir bætast upp með hreinu og beinu skemmtanagildi. Stundum þarf ekki meira. Þannig að, ef Die-Hard-í-flugvél er algjörlega málið fyrir þig, þá skaltu miklu frekar velja þessa heldur en Air Force One.