180px-Veggfodur_VHS„Ef eitthvað er íslenskt cult þá er það VEGGFÓÐUR!“

Svo mæla snillingarnir á bakvið Svarta sunnudaga á Facebook-síðu sinni en næsta sunnudag munu þeir rúlla í gegn leikstjórafrumraun Júlíusar Kemp frá árinu 1992.

Hér bregður Baltasar Kormákur fyrir í sínu fyrsta kvikmyndahlutverki (full frontal og læti) og fara einnig Ingibjörg Stefáns (dittó), Steinn Ármann (…) og Dóra Takefusa á kostum.

Veggfóður: Erótísk ástarsaga segir frá Sól (Stefáns), sveitastelpu sem kemur til Reykjavíkur til að láta drauma sína rætast. Hana langar til að læra að syngja og fær vinnu á skemmtistaðnum Rjómanum til að framfleyta sér. Sveppi (Ármann) er dólgslegur maður sem rekur staðinn. Hann reynir þó að sýna sínar bestu hliðar til að komast í buxurnar hjá Sól. Besti vinur Sveppa er listmálarinn Lass (Kormákur). Sveppi tekur eftir að hann er hrifinn af Sól og veðjar við hann hvor verði fyrri til að sofa hjá henni.
Sóðabælið Reykjavík reynist varasamt fyrir óreyndu sveitastelpuna og hún þarf að læra á lífið í borginni áður en hún getur látið drauma sína rætast.

Taktu daginn frá! 31. janúar kl. 20:00, Bíó Paradís.
Ef þú hefur aldrei séð þennan subbulega kúltúrsgimstein (sem á ekki síður skilið að fá stafræna dreifingu heldur en sorpsnilldin Blossi), og vilt sjá hvers vegna allir misstu sig svona mikið yfir Ingibjörgu Stefáns í denn, þá hvetjum við þig innilega til þess að kíkja.

Krossum svo fingur og vonum að Blossi verði einhvern tímann sýnd.