Í nóvember eigum við von á mikilli veislu frá góðvinum okkar hjá Marvel-stúdíóinu. Nú siglir allt í allsherjar ragnarök hjá þrumuguðinum Þór og hans félögum (en með kómísku sniði að sjálfsögðu, fyrst að þetta er nú Marvel) og svo virðist sem að leikstjórinn Taika Waititi hafi fengið lausan taum til að leika sér aðeins. Waititi, eins og einhverjir eflaust kannast við, leikstýrði perlum á borð við What We Do in the Shadows og The Hunt for the Wilderpeople.

Það er skemmtilegt hlass af leikurum sem bætist við þennan heim í Thor: Ragnarök, þar á meðal Cate Blanchett og Jeff Goldblum. Græni rumurinn virðist heldur ekki láta sig vanta og gefur nýjasta kitlan hressilegan smörþef af fjörinu, undir flottu lagi í kaupbæti.

Sjáum svo í vetur hvernig þessi bardagi mun spilast út.