Leikstjórinn Baldvin Z (Órói, Vonarstræti) er um þessar mundir í miðjum tökum á dramamyndinni Lof mér að falla, mynd sem leikstjórinn gefur upp sem þá átakanlegustu sem hann hefur komið að og er lítið verið að skafa af hlutunum í erfiðu umfjöllunarefni. Myndin er skrifuð af Baldvini og Birgi Erni Steinarssyni – oftast kallaður Biggi í Maus – og segir frá hinni fimmtán ára Magneu, sem kynnist Stellu, sem er átján ára, og þróar sterkar tilfinningar til hennar. Stella notfærir sér þetta og leiðir Magneu inn í grimman heim eiturlyfja sem tekur toll af þeim báðum.

Í viðtali við Vísi segir Baldvin að markmiðið sé að skapa ákveðna tilfinningu með þessari kvikmynd. „Það er sú tilfinning að vera aðstandandi fíkils. Það eru svo mikil vonbrigði og sorg í kringum þetta,“ segir hann. „Við töluðum við stelpur sem voru í heljarinnar neyslu þegar við hittum þær. Í dag eru þær alveg edrú en alveg mass­ívar sögur sem þær sögðu okkur. Þær voru sautján ára, og þá fer maður að spyrja sig: Hvað með foreldrana?

Það er mjög áhugavert að reyna að skilja þann part, með fjölskyldutengslin. Sumir hugsa kannski Hvernig gastu leyft barninu þínu að fara þangað? En það er ekki spurningin. Spurningin er: Hvernig ætlarðu að bjarga barninu þegar það er komið þangað? Þetta er algjörlega ekki í þínum höndum. Fíknin er eitt sterkasta niðurbrots­aflið sem við höfum. Hún sigrar allt. Þú verður svo eigingjarn þegar þú ert í fíkninni, tilbúinn að fórna öllu fyrir alla. Ástin er einnig gríðarlega sterkt afl sem er á hinum pólnum, en þetta er saga um það þegar fíknin sigrar ástina.“

Leikstjórinn segir að foreldrar leikaranna hafi eðlilega spurt sig: „Af hverju ertu að segja svona sögur?“ og því svaraði hann einfaldlega: „Af hverju ekki?“

Raunveruleikinn í fyrirrúmi

Upphafið að verkefninu var mjög óvenjulegt samkvæmt leikstjóranum. „Árið 2011 fæ ég tilboð um að gera eitthvert forvarnarverkefni sem átti að fara af stað en það var sett á hilluna. Ég fer að kynna mér alls konar forvarnir og einhverjar sögur,“ segir hann. Í kringum þann tíma var Baldvin aðstoðarleikstjóri á hrollvekjunni Frost. Þar var hann að vinna með Kristínu Kristjánsdóttur sminku. „Eftir að ég var búinn að segja henni frá þessu forvarnarverkefni þá spyr hún mig hvort ég kannist við söguna um Kristínu Gerði,“ segir hann og bætir við að hann hafi ekki þekkt til hennar þá.

„Það reyndist vera einhver rosalegasta saga sem ég hef heyrt á ævi minni. Þetta er stelpa sem tekur sitt eigið líf í kringum aldamótin. Ég hitti mömmu hennar og systur sem héldu utan um dagbækur sem hún skildi eftir. Eftir þann hitting og í gegnum Jóhannes Kr, enda ég með þessar dagbækur og við Biggi byrjum að lesa.

En eftir að hafa lesið dagbækurnar og unnið töluvert í hugmyndavinnu handritsins fannst okkur vanta meira úr nútímanum, þetta voru allt frekar gamlar sögur, frá í kringum 89-90. Mig langaði að vita meira um hvernig þetta væri í dag og þá kom Jóhannes okkur í samband við nokkrar stelpur, sem voru í neyslu á þeim tíma sem ég hitti, og úr þessum dagbókum og frásögnum þessara stelpna fæddist hugmyndin að þessari bíómynd,“ segir hann.

Þeir Baldvin og Biggi Maus eru farnir að mynda gefandi samstarf sem vaxið hefur á undanförnum árum. „Með Vonarstræti skrifaði ég einn útlínuna og svo skrifuðum við handritið saman, en núna erum við báðir í þessu frá grunni. Við erum báðir veikir fyrir mannlega þættinum,“ segir hann. „Það er búið að leggja geðveika vinnu í strúktúrspælinguna á þessari mynd. Hún gerist á fimmtán árum og ekki í réttri tímaröð.“

Titillinn Lof mér að falla var eitthvað sem Baldvin dreymdi, en heitið hefur ekkert með samnefndu söguna hans Þorsteins Bachmann úr Vonarstræti að gera. Enska heiti myndarinnar er ‘For Magnea’.

Lof mér að falla lítur sennilega ekki dagsins ljós fyrr en seinnipart næsta árs, í fyrsta lagi, en næsta mynd Baldvins verður heimildarmyndin um Reyni sterka. Sú mynd er að sögn leikstjórans búin að vera í vinnslu í rúm fimmtán ár og verður hún frumsýnd í haust.