Baby Driver er algjörlega sú fyrsta af sinni tegund, að því leyti að hún er einstök blanda af gamaldags bíótöfrum og nýstárlegri framkvæmd, þar sem tónlistarnotkun, klipping og kvikmyndataka sameinast í absolút samsetningar-kraftaverk.

Fyrri myndirnar frá Edgar Wright hafa einkennst af úthugsuðum skotum þar sem myndavélin nær nánast að vera sér karakter og náði sá stíll hápunkti með lokainnslagi Cornetto-þríleiksins, The World‘s End. Eftir að hafa þróað fullkomna formúlu sem margir hafa reynt að stíla eftir, tekur hann óvænta 180 gráðu beygju og stefnir í allt aðra átt.

Í Baby Driver er bröndurum fækkað, myndatakan og klippingin ekki jafn hröð og söguþráðurinn ekki sá frumlegasti, en guð minn góður hvað öll samsetningin á henni er glæsileg… og fersk! Útkoman er meiriháttar skemmtileg, spennandi og sjarmerandi. Allur pakkinn, liggur við.

Wright fékk hugmyndina að myndinni fyrir rúmum tuttugu árum síðan þar sem hann vildi gera heist mynd sem spilast í takt við tónlist, án þess að vera söngvamynd.

Myndatakan, klippingin og tónlistin spila fullkomlega saman. Ganglag leikaranna, beygjurnar í bílunum og skotin í byssunum, svo fátt sé nefnt, gerist allt í takt við lagið sem er í gangi hverju sinni. Hvort sem það er með vinsælum stuðlögum eða öðrum meira „obscure,“ nær þessi lagalisti snilldarlega að festa sig sem nauðsynlegur partur af DNA-myndarinnar.

Wright er meðvitaður um að grunnsöguþráðurinn í myndinni fylgir nánast öllum klisjum í bókinni. Síðasta glæpaverkefnið áður en aðalhetjan hættir, ungir elskendur blindir af ást og reiðir glæpónar sem láta peningahungrið ráða för.  Kisjurnar eru samt í lagi því karakterarnir sjálfir eru langt frá því að vera ófrumlegir. Þeir eru allir sjúklega ýktir, litríkir og mikilvægast af öllu eftirminnilegir.

Ansel Elgort, Jon Hamm og Jamie Foxx stela sem algjörlega myndinni. Þó að Wright hafi tónað húmorinn niður þá eru samræðurnar á milli þessara þriggja hnyttnar og meinfyndnar á tímum. Wright leggur líka meiri áherslu á undirliggjandi húmor í óþægilegu andrúmslofti sem á það til að myndast milli ólíkra glæpamanna. Eini leikarinn sem fær ekki að spreyta sín að neinu viti er Kevin Spacey, góður er hann en þó dálítið týpiskur Spacey. Ekki vantar heldur það að Lily James er yndisleg og persónuleikarík sem draumastúlka Baby.

Baby Driver staðfestir algjörlega að Edgar Wright er einn aðdáunarverðasti og færasti leikstjóri samtímans og alls ekki bundinn við einn ákveðin  stíl. Hann má líka eiga það að því lengra sem líður á ferilinn hans því meiri áhersla er lögð á öll smáatriði. Baby Driver er mynd sem verður hægt að horfa endurtekið á og taka eftir nýjum hlutum í hvert skipti.

Ef að þetta er fyrsta myndin af mörgum áframhaldandi „stúdíó-tilraunum“ Wrights þá er ég orðinn ógeðslega spenntur.