“An entire universe. Once and for all.”

Engir spoilerar – Hvar á ég að byrja? Þvílíkar væntingar, þvílík uppbygging og þvílík útkoma. Aldrei fyrr í sögu kvikmynda hefur jafn mikið verið lagt í eina mynd. Myndin kostaði á bilinu 300-400 milljónir dollara, Avatar kostaði 237 milljónir dollara í samanburði. Þetta er 19. mynd Marvel Studios en allar hafa verið að stefna að akkúrat þessu augnabliki. Þessi mynd og almennt sagan um eilífðarsteinana byggir á comic sögunni The Infinity Gauntlet eftir Jim Starlin frá 1991. Sagan er þó talsvert frábrugðin upphaflegu sögunni, til dæmis eru margar persónur sem vantar í myndina sem voru mikilvægar í blöðunum. Þeir sem hafa lesið söguna vita þó meira en hinir þar sem nokkrir stórir atburðir eru endurteknir, segi ekki meira um það.

Russo bræður verða teknir í guðatölu eftir þessa mynd en þeim hefur tekist hið ómögulega, þ.e. að standa undir ómögulegum væntingum. Ég hafði mestar áhyggjur af því að Thanos myndi ekki virka en hann er án efa uppáhalds persónan mín í þessari mynd. Hann er hér ekki bara illmenni heldur djúpur persónuleiki með tilfinningar, bjóst ekki við því. Það sem er erfiðast við mynd eins og þessa er að dansa á milli allra þessara persóna og láta það flæða vel. Allir þurfa að fá sín stóru augnablik, nema greyið Hawkey og Ant-Man sem fengu ekki að vera með. Að mestu tekst að halda öllum boltum á vel lofti en þó eru kaflar í myndinni sem virka aðeins þvingaðir og passa ekki fullkomlega saman.

Þrátt fyrir pínulitla galla nær þessi mynd að sameina allt það besta úr öllum þeim 18 myndum sem á undan henni komu. Við fáum húmorinn og tónlistina frá Guardians of The Galaxy, baráttuandann frá Black Panther, reynsluna frá Captain America, reynsluleysið frá Spider-man og svo mætti lengi telja. Eitt það besta við þessa mynd er að næstu skref eru alveg óljós. Það er hinsvegar þegar þúið að taka upp næstu Avengers mynd en við þurfum samt að bíða eftir henni í heilt ár. Þegar ég var unglingur las ég blöð eins og The Infinity Gauntlet og lét mig dreyma um myndir eins og þessa. Nú eru þær hér og það er auðvelt að taka þeim sem sjálfsögðum hlut. Ekki vera of fullorðin fyrir þessar myndir, skellið ykkur í bíó!

“We kick names and take ass.”

Leikstjórar: Anthony & Joe Russo (Captain America: The Winter Soldier, Captain America: Civil War)