Trailerinn fyrir hrollvekjuna IT sló nýtt met á fyrsta sólarhringnum eftir að hafa lent á netinu, trekkjandi inn 197 milljónir í heimsóknum. Umtalið hefur að mestu verið pósitíft og spenningur fyrir myndinni aðeins að magnast, enda þótti stiklan vera mátulega drungaleg og óþægileg – fangandi rétta anda bókarinnar eftir Stephen King, eða hluta af henni allavega.

Hins vegar voru ekki allir ánægðir með þennan trailer, síst af öllu þeir sem eiga sér það að atvinnu að mála andlitið sitt, blása upp blöðrur og skemmta krökkum með ógnvægilegum hlátri í barnaafmælum.
Að sjálfsögðu erum við að tala um atvinnutrúða.

Skoski trúðurinn Pickles sagði í viðtali við Scottish Daily Record að þessi stikla búi til – eða í það minnsta styrki – neikvæða ímynd um það hvernig heimurinn sér trúða. Bætir hann við að trailerinn og umtalið í kringum myndina sé strax farið að hafa slæm áhrif á bisnessinn. Aðrir trúðar víða um hafa kippt í sama streng. Pickles líkti þessu ástandi við það þegar Jaws kom út á sínum tíma og fólk hræddist það stíft að fara í sjóinn við strendur.

Við vottum Pickles alla okkar samúð, en einhver þarf að færa honum þær fréttir um að trúðar hafa verið undirstaða margra fóbía og martraða, hjá börnum og fullorðnum, í áraraðir.

Kannski gamla IT hafði eitthvað með það að gera?

 

Endurgerðin er væntanleg í haust.