Stutta útgáfan: Stílisk njósnamynd sem kemst yfir þunnt handrit með klikkuðum hasar, töff andrúmslofti og skærustu hasarstjörnu ársins, Charlize Theron.

 

Langa útgáfan:

Atomic Blonde, byggð á teiknuðu skáldsögunni The Coldest City, er kærkomin viðbót í njósnamyndaflóð undanfarna ára. Myndin, ástríðuverkefni Charlize Theron, fjallar um MI6 útsendarann Lorraine Broughton sem fer til Berlínar í leit að lista yfir njósnara sem hefur komist í rangar hendur. Handritið er ekkert að finna upp hjólið og það er heldur ekki markmiðið. Það er stíllinn og hasarinn sem ræður völdum og hann, í stuttu máli, rokkar.

Theron, ásamt framleiðslufyrirtæki hennar, eyddu fimm árum að koma myndinni á hvíta tjaldið. Það sést langar leiðir hversu mikið metnað hún setti í myndina, sérstaklega þegar kemur að slagsmálasenunum. Hápunkturinn er tvímælalaust 10 mínútna löng taka þar sem hún berst í gegnum stigagang. Að vísu mörg skot límd saman en það dregur ekki úr upplifuninni. Þetta atriði eitt og sér er peninganna virði þótt það sé augljóst að því hafi verið troðið inn án tillits til heildarsögunnar.

David Leitch, annar helmingur John Wick leikstjórateymsins, heldur hér í fyrsta sinn einn um taumana. Hann hefur fengið Elísabetu Ronalds aftur með sér í lið sem klippara og er tæknileg úrvinnsla því í góðum höndum. Handritið, hins vegar, er bara fínt. Það eru nokkrir útúrsnúningar sem hefði mátt klippa þar sem þeir leiða hvergi (t.d. lögreglan lemur ungmenni í leit að McAvoy). Annars er það fín uppfylling milli bardaga og sumt kom raunverulega á óvart.

Leikaraliðið er svo ekki af verri endanum. James McAvoy skemmtir sér konunglega í hlutverki MI6 útsendara sem virðist vera drykkfelldur, taumlaus og mögulega svikari. Alveg eins og karakter hennar Theron, eiga áhorfendur erfitt með að treysta einhverjum í þessari mynd og fer McAvoy létt með það að halda okkur á báðum áttum. Eddie Marsan gerir svo sem ekki mikið en það er alltaf gaman að sjá hann. Jóhannes Hauk má ekki gleyma en hann hrindir atburðarrásinni í gang og nær að vera nokkuð ógnvekjandi. Hreimurinn hljómar eins og stereotýpa af Rússa í mynd frá áttunda áratugnum og bætir það við smá sjarma. Eitthvað sem myndin hefur bara gott af. Síðast en ekki síst, Til Schweiger… Djöfull er hann kúl. Meira þarf ekki að segja.

Þetta er samt ekki fullkomin mynd. Því miður. Tónlistarvalið, þó skemmtilegt sé, er ofsalega grunnt og nákvæmlega það sem maður myndi búast við fyrir tíma og stað myndarinnar. Notkunin á “Cat People” kemur hvað verst út, bæði því Tarantino var búinn að eigna sér það lag og atriðið sjálft er í raun bara langdregið labb. Allt labbið í myndinni er partur af öðrum galla myndarinnar. Hún tekur sig ögn of alvarlega sem leiðir til þess að poppaða tónlistin passar á köflum ekki við.

Með sterkara handriti, samræmdari tón þar sem þyngri móment skila sér betur og aðeins minni þörf fyrir stanslausri tónlist væri þetta algjör negla. Án þess er Atomic Blonde samt góð skemmtun með brjáluðum hasar og traustri frammistöðu frá Theron og McAvoy.