Atomic Blonde er njósa- og hasarmynd byggð á teiknimyndasögunni The Coldest City eftir Anthony Johnston og Sam Hart frá 2012. Charlize Theron er einhverskonar ofurnjósnari í líkingu við Sidney Bristow úr Alias eða Jason Bourne, sem tuskar til 100 kg vöðvafjöll eins hún sé að drekka vatn. Sagan hefst árið 1989 í Berlín, rétt fyrir fall múrsins, þar sem aðstæðum er líkt við villta vestrið og engum er treystandi. Með Theron er James McAvoy, sem grefur upp persónu sína úr Filth og bætir í.

Það er ekkert upp á Theron og McAvoy að klaga, bæði gefa allt í hlutverkið, enda alvöru leikarar. Theron hefur greinilega æft stíft fyrir hlutverkið, en hún hefur sjálf tekið þátt í að þróa þetta verkefni í um 5 ár. Áður hefur hún verið í hasarhlutverkum í myndum eins og Mad Max: Fury Road og Æon Flux, svo hún kann þetta allt.

Þessi mynd var ekki alveg nógu góð. Í raun er hún óttaleg froða. Það vantaði heilabrjóta sem gerðu myndir eins og The Usual Suspects góðar og svo fannt mér frásagnarstíllinn ekki alveg virka. Sagan er sögð í fortíð og í hvert sinn sem skipt var yfir í yfirheyrsluherbergið, sem á að gerast í „nútíð“ (þó enn árið 1989, bara aðeins seinna), fannst mér hægjast á myndinni. Það er eitt gjörsamlega magnað bardagaatriði í miðri mynd sem eitt og sér gerir myndina þess virði að sjá. Fyrir utan það má alveg sleppa hennni.

„You can’t un-fuck what’s been fucked.“

 

 
Leikstjóri: David Leitch (John Wick)