Þegar maður heyrði að David Leitch, annar helmingurinn af John Wick teyminu, væri að gera hasarmynd sem gerðist á tímum kalda stríðsins varð maður nokkur spenntur. Ekki nóg með það, heldur fékk hann gæðaleikara í lið með sér: Charlize Theron rokkar aðalhlutverkið og James McAvoy, John Goodman, Toby Jones, Eddie Marsan og Sofia Boutella láta vel um sig fara í aukarullum.

Aðalsöguhetjan Lorraine (Theron) er send til Berlínar, rétt áður en Berlínarmúrinn fellur, til að ná í lista sem inniheldur nöfn gagnnjósnara. Ef þér finnst þetta hljóma kunnuglega þá hefur Mission Impossible kvikmyndaserían nokkrum sinnum tæklað svipaða ástæðu til að senda Cruisarann á hættulegar slóðir, þ.e. til að bjarga nöfnum njósnara CIA frá höndum vondu kallanna. Á sinni sendiferð kynnist Lorraine honum David (McAvoy) sem á að hjálpa henni að finna listann á undan Rússunum. Inn í þetta spilast svik, dráp, kynlíf og eltingaleikir um alla Austur-Berlín.

Ef það væri ekki fyrir David Leitch væri myndin ekki jafn góð og hún er. Leitch veit alveg upp á hár hvernig á að taka upp hasaratriði og notast aldrei við ódýr brögð eins og „shaky cam“, heldur leyfir hann bardagaatriðunum að njóta sín. Eitt atriði kemur strax uppí hugann þar sem 10 mínúta sena rennur í gegn, að því er virðist óklippt. Þar kemur íslenski klipparinn Beta Ronalds sterk inn (hún klippti einnig John Wick á sínum tíma). Ásamt því fíla ég líka hvernig Leitch sýnir persónur myndarinnar þreytast og verða vankaðar eftir að hafa verið lamdar ítrekað í hausinn eða líkamann. Þetta er eitthvað sem nær að selja raunveruleikastig myndarinnar.

Ásamt hasarnum hjálpa tökustíllinn, tónlistin og töffleikinn myndinni að stíga yfir það að vera bara B-mynd (líkt og náðist að gera með John Wick). Leitch nær að koma þér algerlega í 80s fílinginn með litapallettu myndarinnar sem og tónlistarnotkun í ákveðnum senum.

Theron selur það alveg að hún sé njósnari sem getur drepið alla óvini sína strax og þeir komast í færi við hana. Töffleikinn, hasarinn og fílingurinn ætti að vera nóg til að fá fólk til að sjá þessa mynd. Vonandi fáum við fleiri svona hasarmyndir með konu í aðalhlutverki.