“Our survival is locked in his past.”

Tveir rassar í titlinum hefðu átt að vera næg vísbending fyrir mig. Önnur vísbending var að myndin er gerð eftir tölvuleik, en þær eru nánast alltaf mjög slæmar. Mér fannst þó sýnishornið fyrir þessa mynd nokkuð flott og Michael Fassbender (þriðji rassinn) er yfirleitt gæðastimpill. Fassbender er alveg fínn, en hann nær þó ekki að bjarga því slysi sem þessi mynd er.

Þessi mynd er ruglingsleg og oftar en ekki heimskuleg. Allt snýst um að endurleika gamlar minningar í rauntíma í tilraun til að finna eitthvað tól sem á að ræna af mönnum sjálfstæðan vilja. Hvaða bull er þetta? Fassbender gerir þetta allt saman fastur við tæki sem virkar voða fínt og flott þegar hann er að hoppa og berjast, en hvernig á þetta eiginlega að virka þegar hann er hlaupandi, á hestbaki eða bara fer í kollhnís? Hasaratriðin eru svo snöggklippt að erfitt er að sjá hvað er að gerast eða átta sig á framvindu mála. Allt í allt skilar þetta enn einni tölvuleikjaræpunni sem endar í flokki með myndum eins og Doom, Hitman, Far Cry, Street Fighter, Super Mario Bros, Mortal Kombat, Max Payne, Tekken og svo mætti áfram telja.

“We work in the dark to serve the light. We are assassins.”

 

Leikstjóri: Justin Kurzel (Snowtown, Macbeth)