Tölvuleikjabíómyndir hafa misvel tekist að ná flugi, og sérstaklega á þessu ári. Angry Birds myndin mokaði að vísu til sín börnin en Ratchet & Clank og Warcraft stóðu undir væntingum. Í desember fáum við að sjá hvernig Assassin’s Creed mun standa sig, og hvort hún verði fyrsta alvöru góða kvikmynd sinnar tegundar. Í það minnsta lítur allavega út fyrir að myndin leyfi sér að taka ákveðna áhættu með lengdina sína, sem var afhjúpuð fyrir skömmu.

Assassin’s Creed verður 140 mínútur, sem þýðir að hún slær út sýningartíma annarra kvikmynda sem hafa verið byggðar á tölvuleikjum, án gríns. Assassin’s Creed er auðvitað byggð á samnefndi seríu frá Ubisoft og sameinast þau Michael Fassbender og Marion Cotillard aftur undir taum Macbeth-leikstjórans Justin Kurzel. Töffararnir Jeremy Irons (teljum ekki Eragon eða D&D með…) og Brendan Gleeson bregða þarna fyrir líka.

Lengd myndarinnar sýnir vonandi að Kurzel, 20th Century Fox og Ubisoft hafa trú á sögunni á sögunni sem verið er að segja. Hins vegar gætu einhverjir markaðsmenn farið að svitna í ljósi áhættunnar, ekki síður vegna þess að myndin er frumsýnd stuttu eftir að Rogue One lendir í bíó. Sú mynd mun sennilega halda stórum nördahópum afar uppteknum í jólaösinni en ef Assassin’s Creed kemur vel út er lítil fyrirstaða fyrir því að ekki sé til pláss fyrir hana líka.

Vonum.

Hér er trailer: