Stutta útgáfan: Hér höfum við stórar, dýrar dýratæknibrellur og magnað umhverfi  til þess að dáleiða þig frá þunnu handriti, en skemmtileg, flott afþreying með góðu tempói.

7

 

 

Langa útgáfan:

Þessar „live action“ Disney-endurgerðir eru komnar til að vera. Sættum okkur bara við það og bráðlega megum við gera ráð fyrir að Pete’s Dragon, Fríða og dýrið, Aladdín og Mulan fái sama trítment. The Jungle Book nær annars vegar ágætlega að réttlæta tilvist sína og uppfærir uppruna sinn með stórglæsilegum umbúðum. Hjálpar samt óneitanlega að gamla eintakið hafi aldrei verið nein snilld.

Það fer ekki á milli mála að fólkið sem sá um tæknibrellurnar í þessari mynd á skilið þrumustórt klapp fyrir þá hundruði tíma sem fóru í að skapa dýrin og umhverfið; stúdera hreyfingar, mastera smáatriði, allt saman. Gullfallega gert.

Eini raunverulegi hluturinn í myndinni er hann Mowgli (Neel Sethi), allt annað er tölvugert og var öll myndin tekin upp innandyra. Það er ótrúleg staðreynd og lætur mynd eins og Hobbitann líta illa út í samanburði eins og ljótan tölvuleik í samanburði enda reyndi hún sömu hluti en tókst það ekki jafn vel. Hins vegar mæli ég sterklega með því að sjá myndina í þrívídd, eins og er gert ráð fyrir, þar sem umhverfið og leikarinn blandast alls ekki vel saman þegar þrívíddin er fjarlægð. Hún mun missa mikinn sjarma þegar hún fer á Blu-Ray nema þeir litablandi hana betur fyrir heimabíó. Án 3D filtersins í gleraugunum er umhverfið alltof litríkt til að reikna með því að gleraugun dekki myndina. Skotin eru flest öll sett upp fyrir 3D og á 2D sýningu blandast þau alls ekki jafn vel þar sem fókusinn er stilltur fyrirfram.

The-Jungle-Book-999_bf_0240_comp_v0246_right.1203-1

Myndin er bæði aðlögun á sögum Rudyards Kipling og í senn endurgerð á gömlu Disney-teiknimyndinni. Hún flæðir hratt í gegn og má segja að hún sé meira samansafn af atriðum frekar en að gefa þér þéttan söguþráð eða snyrtilega heild, ekkert ósvipað því hvernig teiknimyndin fór að því en hugar betur að þemunum þó. Hún stekkur annars frá einu í annað og gefur manni oft ekki einu sinni tíma til að anda, handritið er svo upptekið við að kynna þér fyrir öllum persónunum sem skreyta skóginn.

Upprunalega teiknimyndin gaf okkur mörg lög sem eru í dag tímalaus klassík og flestir kannast við þau ef maður kveikir á þeim. Þessi útgáfa er ekki alveg viss hvort hún vilji nota þau eða ekki og ákveður því að nota bara tvö vinsælustu lögin. Þau koma með stuttu millibili og gefa okkur smá fíling á því hvernig myndin hefði verið með öllum lögunum, það hefði því verið töluvert betra að nota bara eina alþekktasta lagið og kalla það gott. Það bætir gráu ofan á svart að Christopher Walken syngur eitt af þessum lögum og það hljómar bara einfaldlega ekki vel. Þessi tiltekni söngbútur dregur mann alveg út á vandræðalegu augnabliki. Lagið kemur að vísu ögn betur út þegar lokakreditlistinn kemur upp, undir grafík sem nýtur sín albest í 3D.

the-jungle-book-059_CT_1230_comp_v0208_right.86467_v02

Raddleikararnir eru samt flottir enda flestallir mjög vel þekktir og flottir leikarar. Christopher Walken er góður í sínu hlutverki, hann hefði bara ekki átt að syngja. Bill Murray, Ben Kingsley og Idris Elba eru allir alger snilld og dýrin svo rosalega vel gerð að þetta blandast allt snilldarlega saman. Eina sem átti það til að pirra mig er að hljóðblöndunin var upp og niður. Raddirnar hljóma eins og þær hafi verið teknar upp á biluðum míkrafón og voru alls ekki eins tærar og maður hefði búist við í svona framleiðslu. Ég veit ekki hvort að þetta hafi verið viljandi þar sem það voru bara dýrin sem voru svona en mér fannst þetta frekar skrítið.

Þrátt fyrir ýmsa galla heldur hún mikilvægasta elementinu uppi: skemmtanagildinu, Hún missir ekki tempóið og lúkkar alveg ótrúlega vel. Jon Favreau er auðvitað bæði skólaður í brelluveislum og fjölskyldumyndum (frá Iron Man til Zathura) og sýnir styrkleika sína með smá hjarta og jákvæðum skilaboðum í kaupbæti. Það hefði verið fínt að fá aðeins kjötaðari sögu en það er þó ekki erfitt að sætta sig við lokaútgáfuna.