Stutta útgáfan: David F. Sandberg reynir, en hann er enginn James Wan. Ef þú fílaðir hina myndina þá ætti þessi að vera bærilegasta skemmtun seint á laugardagskvöldi. Ef ekki…

 

Langa útgáfan:

Í þessu framhaldi sem gerist á undan fyrri spinoff myndinni (úff) færumst við enn aftar í líflínu Annabelle dúkkunnar, nú alla leið að sköpun hennar á sjötta áratug síðustu aldar og atburðarrásarinnar sem leiðir til þess að hún verður að þessari hálf-íkonísku hryllingsmynda fígúru nútimans.

Rúmum áratug eftir harmþrunginn dauða dóttur þeirra, hleypa leikfangasmiður og konan hans nunnu og hópi munaðarlausra stelpna, í leit að hæli, inn á eyðilegan búgarðinn sinn. Í fyrstu sýnist nýju íbúunum flest vera með felldu, eða allavega þangað til að Janice (sem stríðir við lömunarveiki og er útundan í hópnum) uppgötvar dúkku sem hýsir illsku. Brátt fer allt á hliðina. Vissulega.

Þrátt fyrir ríflegan gróða á heimsvísu og að skarta stakri eftirminnilegri senu þá gerði fyrri Annabelle myndin langt í frá nóg til að réttlæta tilvist sína listrænt. En við fyrstu kynni virðist´Annabelle: Creation‘ ætla að taka mistökin sem gerð voru í fyrri spin-off myndinni um titluðu dúkkuna drungalegu og vinna úr þeim eitthvað aðeins meira fullorðins og heilsteypt. Það líður þó ekki á löngu þar til að leikstjóri myndarinnar, David F. Sandberg, fellur í svipaðar gildrur og hann gerði í frumraun sinni ‘Lights Out‘ (sem er á meðal verstu mynda 2016) og við góðri uppbyggingu tekur fölsk tilfinningasemi og skortur á meðvitund og ígrundun um efnivið myndarinnar.

Til að minna okkur á að myndin sé hluti af Conjuring heiminum virðist Sandberg telja sig skyldugan að apa eftir stílbrögðum skapara hans, James Wan. Við fyrstu kynni okkar á nýja heimili Janice og hinna munaðarleysingjanna er myndavélin látin elta þær um húsið í einni töku (þó rúmlega það líklega) líkt og Wan gerði í fyrstu Conjuring myndinni en nýting Sandbergs og kortlagning á umhverfinu nær ekki langt þegar hryllingurinn á að skella á fyrir alvöru, í stíl við klassík Stanley Kubrick, The Shining – þar sem heilt hótel var karakter út af fyrir sig. Svipuð dæmi er að finna dreift út um myndina, brögðin til að gera eitthvað við andrúmsloft og umhverfi eru til staðar en koma meira út eins og tilgerð frekar en eitthvað sem nýtist af alvöru til að gera heildina beittari.

Það hefur staðið nokkuð greinilega út úr í Conjuring myndunum hans Wan hversu innilega þær virðast trúa á og bera virðingu fyrir mátti trúarinnar (þá helst á trú sem hæli og hjálpartól í réttum aðstæðum). Annabelle: Creation kynnir þessi og svipuð þemu til leiks en kýs að gleyma þeim seinna meir í tilgangi þess að snúa mótífum og minnum á hvolf og skapa hættutilfinningu í kringum persónurnar (trikk sem Sandberg nýtti sér líka í Lights Out). Sandberg er langt frá því að vera sá fyrsti til að notast við þessa nálgun en hérna endar hún bara á því að stangast á við þann kraft sem myndin hafði uppsafnað með þolinmæði og týnir sér þannig í restina.

Til samanburðar hefur Wan sýnt meðvitund um sögu og mótíf hryllingsmynda að forðum og notfærir sér þau samtímis með virðingu og glott á vör. Ástríða hans er smitandi og áþreifanleg í hverjum ramma, en hann veit líka hvenær á að leyfa myndunum sínum að vera svoldið kjánalegar (í annari Insidious myndinni lætur hann allt flakka). Það er þessi þáttur sem fer hvað helst á mis í Annabelle myndunum báðum. Þær taka sig í heildina mjög alvarlega og kjánalegheitin virðast öll vera óviljandi (sem er glatað tækifæri, þar sem fylking af myndum um djöfullega dúkku hefur í grunnin ekki efni á að stilla sér upp sem alvarlegustu hryllingsseríu nútímans).

Myndin er þó ekki alvonlaus, þar sem Sandberg heldur góðu tempói yfir allt og gerir nokkuð vel í fyrri hluta myndarinnar þegar uppbyggingin er (hæfilega) í hægari kantinum og spennan fær að magnast stöðugt og á trúverðugan hátt sem reiðir sig minna á bregður. Janice fær að njóta sín sem persóna og forvitni hennar og einmannaleiki (sem leiðir út í ofsafengni seinni helmingsins) gefa hryllingsatriðunum stöðugan grunn sem Sandberg nýtir til að setja saman atriði sem reiða sig á meira en bara langar þagnir og læti.

Þetta gefur myndinni forskot á forvera sinn en vandamálið er bara það að þessi atriði er rétt svo hægt að telja á annarri hendi og þar sem nóg er bæði um gæðamyndir og skemmtilegt rusl í hryllingsgeiranum um þessar mundir, stendur mynd eins og Annabelle: Creation ekki nema sem enn önnur óminnistæð viðbótin í framhaldsmyndasúpuna stóru.