Stutta útgáfan:

Ég vil ræða alveg frábæra kvikmynd. Það er margt frábært við hana, en ég tel mig hafa áttað á því hvað gefur henni X-Factor, hvað það er sem gerir hana ekki aðeins magnaða, heldur líka gríðarlega mikilvæga.

 

Langa útgáfan:

Hún er nefnilega ekki aðeins góð kvikmynd út af fyrir sig, heldur er hún það sem ég vil kalla and-kvikmynd. Hún tekur fyrir staðnaðan staðal og brýtur hann niður í mola. Hún sýnir fram á að það er alltaf hægt að setja sig upp á móti stöðlunum, jafn óbreytanlega og við teljum þá vera. Í stuttu máli sagt gefur þessi kvikmynd mér von. Til þess að átta sig á hverju and-kvikmyndin er í andófi við, er mikilvægt að fjalla fyrst um upprunalega staðalinn sem hún er ráðast gegn.

Þú hefur séð staðalkvikmyndina sem ég er að tala um áður. Ef þú hefur séð The Last Samurai, Dances With Wolves, The Last of the Mohicans eða rúsínuna í pysluendanum; Avatar, þá hefurðu séð hana. Og blákaldur sannleikurinn er sá að ef að þú hefur séð eina af þessum myndum, þá hefurðu séð þær allar.

Þetta er í raun vitað mál og ekkert nýtt af nálinni. Í þessum myndum er söguþráðurinn ætíð sá hinn sami; hvíti, bandaríski karlmaðurinn verður að búa í ekki-hvítum eða ekki-bandarískum (eða jafnvel ekki-mennskum í Avatar) menningarheimi út af einhverjum sérstökum kringumstæðum. Í fyrstu líst hinum hvíta ekkert á hina ekki-hvítu villimenn, en hægt og bítandi (eða í gegnum hentugt montage) fer honum að lítast á þetta einfalda, góða fólk. Oftast nær er stúlka úr ættbálknum (helst dóttir höfðingjans) innifalin í jöfnunni. Undir lok myndarinnar bjargar hvíti maðurinn ættbálknum frá öðrum hvítum mönnum með sínum hvítu-yfirburðar-ofurkröftum og göfuga umburðarlyndi. Héðan í frá er hann heiðursmeðlimur ættbálksins og kennir þeim ef til vill nokkra flotta, hvíta siði ef þeir eru heppnir.

And-kvikmyndin sem ég ætla að fjalla um er þá engin önnur en Pókahontas. Tilhögunin virðist í fyrstu vera sú hin sama; dóttir höfðingjans er ægifögur og verður ástfangin af göfuga, sterka hvíta manninum sem sker sig frá hinum. Hann kemur til landsins í nýlendutengdum tilgangi, foringi hópsins er illur og vill algjör yfirráð og restin af hópnum fylgir foringjanum eftir. En hetjan okkar er hvítur maður af göfugum meiði; hann segir prinsessunni í einu atriði að þeir vilji sýna villimönnunum hvernig á að lifa og byggja fyrir þá hús og vegi. En hugmyndafræði myndarinnar verður um leið skýr, og stúlkan sýnir honum mikilvægi náttúrunnar og merkingu sanns umburðarlyndis.

Ástæðan fyrir þessum skrifum er að ég hef oft heyrt Avatar vera borna saman við ekki aðeins þær myndir sem ég nefni hérna á undan, heldur líka Pókahontas. En á þeim samanburði er heljarinnar galli. Því að hvernig eru öll áflog leyst í öllum hinum staðalkvikmyndunum?

Með orrustu. Karlmennirnir taka sig saman og sýna hvað í þeim býr og svo verður ein heljarinnar orusta með hvíta, nýja meðlimi ættbálksins í forrustunni. Á meðan bíður prinsessan áhyggjufull eftir hetjunni sinni heima við. Jafnvel gerist það oft að faðir hennar deyr í ferlinu, oft af beinum eða óbeinum völdum hetjunnar, en samt sem áður elskar hún hann og tekur honum sem nýjum höfðingja feðraveldisins sem hún hrærist í. En í Pókahontas gerist algjör andstæða þessa. Kvenhetjan okkar rís upp, þeytist af stað og stöðvar hina karllægu orrustu haturs og valdaþrár. Hún gerir það með hjálp hugrekkis og visku. Höfðinginn, faðir hennar, hlustar á hana og leggur niður vopnin, og þá fylgja hinir á eftir. Skúrkurinn, tákn óseðjanlegrar fávisku og græðgi, hlustar ekki og rís upp, en það er þaggað niður í honum endanlega eftir að fylgjendur hans sjá ofbeldið bitna á hetjunni.

Karlmennirnir sjá raunverulegar afleiðingar ofbeldsins og hatursins og leggja niður vopnin. Núna gætu sumir bent á að þessi útfærsla sé óraunveruleg og útópísk, að þetta myndi í raun aldrei gerast. Þá vil ég benda á að hin útfærslan, sú með sigrunum fengnum með bardaga og ofbeldi, er alveg jafn óraunveruleg og útópísk. Það eina sem skilur þessar tvær mismunandi lausnir í sundur er að ein lausnin fæst með ofbeldi en hin með ást. Ein með hvítum karlmanni og hin með konu úr ættbálknum. Ef að báðir endar eru jafn ævintýralegir, því ekki að nota þann sem gefur betri skilaboð og sýnir fram á jákvæðari, friðsamlegri og kvenlægari hugmyndafræði? Í það minnsta í þetta eina skipti. Pókahontas: “Horfið í kringum ykkur. Þetta er sú leið sem hatrið hefur borið okkur. Þetta er sú leið sem ég vel, faðir. Hvert liggur þín?”
Póhatan höfðingi leggur niður sleggjuna og mælir: “Dóttir mín mælir af visku þó að ung sé að árum. Við erum allir komnir hingað með reiði í hjarta, en hún kom hingað með skilning og hugrekki. Héðan í frá, ef drápin verða fleiri, mun ég ekki eiga upptökin.”

Það þýðir heldur ekki að benda á að þessi friðarsáttmáli myndi ekki endast og að fleiri hvítir menn hefðu einfaldlega komið í stað þeirra sem lögðu niður vopnin. Í fyrsta lagi því að það hefði alveg eins geta gerst ef áflogin hefðu verið leyst með orrustu, í öðru lagi því að þetta er saga sem er myndlíking eins og svo margar aðrar sögur. Ástin vinnur hatrið. Friðurinn vinnur ofbeldið. Það hefur gerst í veröldinni jafn oft og hið gagnstæða. Því er þá sú lausn ekki notuð oftar? Telst hún ekki nógu spennandi?

Pókahontas er persónulega uppáhalds Disney-myndin mín. Hún var jafn vinsæl og vel metin og allar hinar. Hún sýnir fram á það að vel skrifuð og vel gerð kvikmynd er alveg jafn góð þó að þú skiptir ytri áflogum út fyrir innri áflog, þó að þú sleppir lokabardaganum og gefur hápunktinn með öðrum friðsamari hætti. Að Pókahontas hafi stöðvað bardagann krefst alveg jafn mikils hugrekkis og ef karlhetjan hefði barist í bardaganum, ef eitthvað er krafðist gjörð kvenpersónunnar meiri hugrekkis þar sem hún var einnig að setja sig upp á móti fjöldanum. Jafn mikill hápunktur og spenna skapaðist með þessari lausn, ef ekki meiri þar sem hún var í andófi og var öðruvísi. Myndin sýndi fram á möguleika alls þessa og því vil ég veita þessari teiknimynd sérstaka viðurkenningu fyrir að vera dæmi um það, að hægt er að setja sig á móti hinum venjulegu stöðlum, brjóta þá niður og takast ætlunarverk góðrar afþreyingar um leið. Fyrir mína parta vildi ég sjá fleiri kvikmyndir fara þessa leið.