Í tilefni af frumsýningu Deadpool er ekki ósniðugt að renna aftur yfir myndina þar sem karakterinn brugði fyrir… áður en framleiðendur töpuðu alveg viti sínu og saumuðu fyrir kjaftinn á honum (svo eitthvað sé nefnt).

X-Men Origins: Wolverine er af mörgum talin slakasta myndin í X-seríunni, en myndin á sér hins vegar verjendur – einn þeirra er penni á þessum vef. Kíkjum á hvað Sigga Clausen hefur að segja og á móti stígur Róbert Kesh, X-Men unnandi mikill, til þess að minna okkur hin á hvers vegna þessi ræma risti svo djúpt.

 

Sigga – MEÐ

x-men-origins-wolverine-hugh-jackman-1Meginhlutverk Origins var að koma sögum stökkbreyttu ofurhetjanna á bát og sigla með áhorfendur á nýjar strendur ævintýranna. Þó leikararnir séu þeir sömu og í öðrum X-Men myndum þá má ekki líta á hana sem hluta af hinum. Horfa þarf á hana sem eina einstaka mynd og njóta þess að upplifa ofurhetjuhasar sem Hugh Jackman gerir á sinn einstaka hátt.

X-Origins: Wolverine er ekki að finna upp hjólið, en hún sér til þess að það hættir ekki að snúast og finnur skothelt flæði í mjög einfaldri framvindu. Hasar, smá rómans, smá persónusköpun en sér í lagi er þetta hasarblaðamynd í orðsins fyllstu merkingu; skrípaleg, viðburðarík og tekur sig aldrei of alvarlega.

Þó við eigum ekki að líta á hana sem hluta af X-Men bíóbálknum þá svarar hún mörgum spurningum sem þær skyldu eftir fyrir áhorfendur eins og hvaðan adamantium efnið kom, hversu gamall er Wolverine, hvernig týndi hann minninu og hvaðan kom nafnið. Hvað spennu og hasar varðar er nóg af því að fá frá leikstjóranum sem kveikir reglulega á adrenalíninu með töff atriðum eins og þyrlustökk á mótorhjóli eða slagsmál við karaktera á borð við Sabretooth og Gambit.

Loks skemmir ekki fyrir að hér fengum við að sjá hinn alræmda Deadpool á hvíta tjaldinu. Hafa skal það á hreinu að ef Origins hefði ekki komið út þá væru líkurnar á að Deadpool mynd með Reynolds í aðalhlutverki minni en líkurnar á að Gambit yrði aftur leikinn af Taylor Kitsch.

 

Róbert – Á MÓTI

X-men-origins-wolverine-weapon-xi-deadpool-endingSvo vond mynd. Hún er ekki einu sinni skemmtilega vond, heldur fellur hún í hundleiðinlega flokkinn sem hýsir grútléleg tæknibrellumiðjumoð sem eru of þreytt og ófrumleg til að innihalda einhverskonar skemmtanagildi. Þú þarft að reyna ansi mikið til að kreista hlátur yfir feilsporum myndarinnar, og þau eru svo mörg að furða sé að flestir séu ekki búnir að gefast upp eftir 20 mínútur. Það er heil ritgerð út fyrir sig líka hvað hún nauðgar tímalínunni sem sem heil trílógía stillti upp. Continuity-ið fór í logandi klessu frá og með þessari.

Það er stórt, rautt flagg ef þú nærð ekki einu sinni að framsetja klærnar vel. Myndin tæklar forsögu Wolverine alveg frá blautu barnsbeini og ákveður snemma að allar þjáningar og naflaskoðanir sem eilíft líf getur veitt persónu er betur nýtt í fljótlegt montage sem skautar yfir alla áhugaverðu hlutina (öll þessi stríð!), og að kexþurr rómantík sé miðjupunktur bæði sögunnar og karaktersins. Ákörðun sem reynist banvæn þegar sagan kallar á senur beint úr hallærislegum póstkortum af Wolverine sem skógarhöggsmanni í sekvens sem líður eins og heil pínleg eilífð.

Á tæknilegu sviði er hún ódýr og ósmekkleg, hún angar af kvörtunum frá fókusgrúppum og hún telur í góðri samvisku að besta leiðin sé að flýta sér á milli teygðra hasarsena svo áhorfandinn taki ekki eftir illa lyktandi prumpinu sem sagan er; en jafnvel hasarinn er bæði þröngvaður og forljótur, sama hvaða staðall er settur á. Síðan í þokkabót sóar hún nýjum persónum með einhverskonar persónuleika hægri vinstri fyrir annaðhvort kúkalegan húmor eða drepleiðinlega dramavinkla; sem byrjar auðvitað allt með skelfilegri túlkun persóna yfir á hvíta tjaldið.

Ef upplifunin hefur ekki verið nógu slæm nú þegar, setur myndin svo loks upp hendurnar undir lokamínúturnar og kallar: „Neibb, veistu, hann man ekkert. Skotinn í hausinn. Djöfulsins vesen,“ og þessir tveir tímar sem áhorfandi sóaði í þessa þvælu hafa verið gerðir tilgangslausir. Svo vond að hún lætur Brett Ratner-mynd líta ágætlega út í samanburði.

 

 

Hvoru megin við línuna ert ÞÚ?