„Experience it. Enjoy it. Just don’t fall for it.“

Þessi útgáfa af Almost Famous er 154 mínútur eða 36 mínútum lengri en upprunanlega útgáfan. Það er talsvert langur tími fyrir bíómynd sem er með mjög einfaldan söguþráð og byggist meira upp á andrúmslofti og persónusköpun en sögu. Af einhverjum ástæðum virkar allt í þessari mynd og jafnvel enn betur í þessari löngu útgáfu. Myndin gerist árið 1973 og maður fær góða tilfinningu fyrir tímabilinu í gegnum tónlistina, tískuna og andann í loftinu. Frances McDormand er í aukahlutverki en hún er lang best sem áhyggjufulla móðir aðalhetjunnar sem leikinn er af Patrick Fugit. Það er náungi sem lofaði góðu en ekkert hefur orðið úr, veit ekki af hverju.

Myndin fjallar um 15 ára strák sem elskar tónlist og nær að troða sér á tónleikaferðalag með rokkhljómsveitinni Stillwater sem blaðamaður. Stillwater er tilbúin hljómsveit sem endurspeglar tónlistina frá þessu tímabili sem hafði mikil áhrif á leikstjórann. Jason Lee er góður sem aðalsöngvarinn þótt hann syngji ekki sjálfur og Billy Crudup (Dr. Manhattan úr Watchmen) stelur svolítið senunni. Svo verður að nefna Kate Hudson sem allir í myndinni verða ástfangnir af á einn eða annan hátt.

Almost Famous er ekta „coming of age“ mynd sem er mjög ánægjuleg upplifun. Það er ekkert rosalegt drama, bara venjuleg mannleg vandamál og pælingar um lífið. Þetta er skemmtileg mynd sem er auðvelt að mæla með.

 „I’m telling secrets to the one guy you don’t tell secrets to.“

Leikstjóri: Cameron Crowe (Jerry Maguire, Vanilla Sky, Elizabethtown)