Hinn 29 ára gamli Ryan Coogler hefur verið valinn til þess að leikstýra sjálfstæðu bíómyndinni um Marvel-hetjuna Black Panther, sem mun bregða fyrst fyrir í Captain America: Civil War nú í sumar áður en meira kemur.

En Coogler hefur annars verið á mikilli uppleið á skömmum tíma og hefur hlotið mikla hylli fyrir Creed og sendi einnig frá sér hina óvæntu og vel heppnuðu Fruitvale Station árið 2013. Og af þessum verkum að dæma hefur hann sýnt fram á að honum sé mjög annt um leikara sína og persónur, þannig að spennandi verður að sjá hvaða töfra hann hefur að bæta við þessa fígúru, og þennan skala.

black_panther_96347

Chadwick Boseman fer með hlutverk titilhetjunnar og kemur að mestu frá sjónvarpsbakgrunni, en annars vegar stóð hann sig glæsilega sem James Brown í myndinni Get On Up. Andy Serkis mætir annars aftur í Marvel-heiminn sem Ulysses Klaw, eftir litlu kynninguna sem hann fékk í Age of Ultron í fyrrasumar.

Marvel's Avengers: Age Of Ultron Ulysses Klaue (Andy Serkis) Ph: Film Frame ©Marvel 2015

Annars ættu flestir leikstjórarnir að vera ráðnir fyrir þriðja fasann hjá Marvel-heiminum. Fyrir ekki svo löngu síðan kom í ljós að Taika Watiti (What We Do in the Shadows) sæi um Thor: Ragnarök (2018). Scott Derrickson er að öðru leyti á fullu að vinna að Dr. Strange (’16), Jon Watts (Cop Car) tekur nýju Spider-Man endurræsinguna (’17) að sér og Peyton Reed snýr aftur til þess að gera Ant-Man and the Wasp (’18). Þá á bara eftir að finna nöfnin fyrir Miss Marvel og (seinna meir) Inhumans.

Áætlað er að gefa Black Panther út í febrúar 2018.