Áður en Ridley Scott ákvað að vaða í Alien: Covenant var annar leikstjóri byrjaður að undirbúa sitt eigið framlag til seríunnar. Umræddur kvikmyndagerðarmaður er að sjálfsögðu Neill Blomkamp, gaurinn sem færði okkur District 9, Elysium og Chappie.

Blomkamp var búinn að selja framleiðendum þá hugmynd að gera „raunverulega“ framhald Aliens, þar sem Sigourney Weaver snéri aftur ásamt persónunum Newt og Hicks. Michael Biehn ætlaði einnig að mæta aftur í slaginn, en eins og aðdáendur seríunnar vita voru þessir seinni tveir karakterar drepnir í byrjun Alien 3. Framhaldsmynd Blomkamps gekk undir vinnsluheitinu Alien: Xeno og var af mörgum séð sem „aðdáendamynd,“ sem ætlaði sér ekki að eiga sér neina sérstaka tengingu við Prometheus og myndi að mestu hundsa atburði Alien 3 og Resurrection.

Alien: Xeno var enn á forvinnslustigi og „concept“ teikningar (sjá neðar) voru farnar að leka og trekkja upp áhuga ýmissa aðdáenda. Á tímapunkti leit allt út fyrir að þetta yrði næsta verkefni Blomkamps, en um leið og Ridley ákvað að setja Prometheus-framhaldið sitt af stað var fljótlega ákveðið að ýta hinu verkefninu til hliðar. Sú ákvörðun fór misvel í hörðustu aðdáendur myndbálksins.

Blomkamp hefur eflaust beðið þolinmóður og vongóður eftir svörum um hvort hann fengi að flytja sína sýn a hvíta tjaldið, en nú er algjörlega búið að slaufa þann möguleika.

Aðspurður um Blomkamp-myndina var Scott fljótur að skjóta hana niður í viðtali við franska miðilinn Allocine. Sagði hann að myndin ætti ábyggilega aldrei eftir að líta dagsins ljós og að hafi ekki einu sinni verið fullbúið handrit. „Það var aldrei neglt niður. Þetta var bara hugmynd sem þróast í „pitch“ sem var tíu blaðsíðna langt.“

Þarna kemur fram að þetta pitch Blomkamps hefur greinilega vakið áhuga hjá stúdíóinu en nánari þróun hefur eitthvað staðnað. Það spilast líka eitthvað inn í málið að Ridley hefur sjálfur áhuga á því að gera (eða í það minnsta framleiða) fjórar aðrar Alien-myndir í viðbót. Hann kom þessu auðvitað öllu af stað. Hann ræður hvað verður gert við þetta. Orðrómar hafi verið á flugi um að Fox hafi eingöngu kitlað möguleikann á Xeno-myndinni til að sannfæra Scott um að snúa aftur sem fyrst.

Alien: Covenant er að mörgu til hönnuð sem „brúarmynd“ á milli fyrstu myndarinnar frá 1979 og Prometheus. Myndin kemur í bíó 19. maí og verður forvitnilegt að sjá hvort sú mynd flytji seríuna á nýtt gæðaplan á ný eða hvort hún verði jafn umdeild á meðal áhorfenda og Prometheus.

Hér er smá smakk af því sem Covenant mun fara út í: