Nýverið flutti ég til Bandaríkjanna til að stunda nám í kvikmyndaskóla. Skólinn er í Austin, Texas, blárri demókrataborg í rauða fylkinu. Borg sem er þekkt fyrir frjálslyndi, hipsterisma, fjölbreytta tónlistarsenu (South by Southwest hátíðin er t.d. haldin þar) og mikið listalíf. Slagorð borgarinnar er líka “Keep Austin Weird” – hún er semsagt allt öðruvísi en restin af Texas, flestir í Austin kusu t.d. ekki Trump.

Eitt af því mörgu athyglisverðu sem borgin er þekkt fyrir, ásamt því að vera “live music capital of the world”, er bíóhúsakeðjan Alamo Drafthouse. Keðjan er núna á víð og dreif um landið, en hún hóf líf sitt í Austin þar sem eru sex Alamo Drafthouse bíóhús. Eftir að hafa búið í tæpt ár í Austin hef ég prufað nokkur þeirra, þ.á.m. The Alamo Ritz sem er minnsta Drafthouse bíóið – aðeins tveir salir –, Alamo South Lamar sem er það stærsta og telur níu sali, og Alamo Mueller – það nýjasta.

Alamo Drafthouse keðjan snýst um að bjóða upp á frábæra bíóupplifun sem og að höfða til sem flestra, bæði sótsvarts almúgans sem og alvarlega bíónörda. The Ritz t.d. sérhæfir sig í svokölluðum “Repertory” sýningum þar sem hún sýnir alls konar gamlar myndir, þá helst költmyndir, samhliða nýjum myndum. South Lamar höfðar meira til hins almenna áhorfanda og þar eru aðallega sýndar blokkböster myndir eins og Rogue One og Guardians of the Galaxy Vol. 2, ásamt stærri “indie” myndum eins og t.d. Moonlight og Toni Erdmann. Mueller bíóið syndir síðan enn meira með meginstraumnum og sýnir meira og minna bara blokkböster myndir.

Alamo Drafthouse var stofnað árið 1997 í Austin og í fyrstu var það aðeins eitt sýningartjald í gömlu vöruhúsi sem var yfirleitt notað sem bílastæði. Það sem gerði hins vegar þetta “bíó” sérstakt var að þar var boðið upp á mat og drykk yfir myndunum og þjónað var til borðs. Langt borð var fyrir framan hverja sætaröð með bil á milli raða svo þjónarnir kæmust að. Þetta fyrirkomulag stendur enn og er akkúrat það sem bíóið gengur aðallega út á.

Fljótlega eftir að bíóið opnaði náði það athygli manna á borð við Richard Linklater, Harry Knowles og Quentin Tarantino, sem hóf sjálfur að halda regluleg bíómaraþon þar. Smám saman stækkaði starfsemin og bíóunum fjölgaði. Bíóið sérhæfði sig líka í að sýna alls konar költmyndir og þá oft með sérstökum gestum.

Aldrei eru spilaðar hefðbundnar auglýsingar á undan sýningum í Alamo Drafthouse heldur eru sýndir sérhannaðir trailerar fyrir myndir og væntanlega viðburði, ásamt alls konar steiktum klippum í tengslum við myndina sem maður er að fara á. Gott dæmi er að á undan Sausage Party var sýnt steikt pólsk teiknimynd um manngerðar pylsur að leika sér á baðströnd. Svo má nefna kynningarvídjó sem kemur alltaf rétt á undan myndinni þar sem sagt er að bíóið sé orðið “no talking and no texting zone” og að síminn manns eigi að vera “dark, silent and out of sight”. Auk þess eru oft spilaðar sérstakar auglýsingar sem sýna afleiðingar þess að nota símann, en tekið er hart á því. Sjálfur hef ég reyndar ekki orðið vitni að slíku ennþá, svo menn hafa greinilega lært! Hér er eitt gott dæmi um slíkt myndband:

Með Alamo Drafthouse er ekki bara verið að bjóða upp á kvikmyndasýningar, heldur bíóupplifun. Það mætti kannski deila um þá truflun sem gæti falist í því að þjónar séu labbandi um með veitingar á meðan myndin er í gangi, en þetta virkar ágætlega. Mestöll þjónustan gerist áður en myndin byrjar og þjónarnir láta lítið fyrir sér fara þegar sýningin er byrjuð. Reyndar er smá böggandi að þurfa að spá í hlutum eins og það að þurfa að reikna út þjórfé yfir miðri mynd, en það er annað mál. Í þessu bíói er þess virði að mæta snemma, þar sem sett eru í gang áðurnefnd myndbönd, trailerar og auglýsingar um hálftíma áður en myndin byrjar.

Ég skellti mér á sýningu á John Waters myndinni Multiple Maniacs sem var nýverið endurútgefin í 4K gæðum. Myndin var sýnd á miðvikudagskvöldi, en allir miðvikudagar í Alamo Ritz eru svokallaðir “Weird Wednesdays” þar sem gamlar og furðulegar költmyndir fá sinn sess. Á undan myndinni voru sýndir trailerar fyrir aðrar “Weird Wednesday” myndir á borð við She-Devils on Wheels og auglýsingar fyrir þema næsta mánaðar sem er “Twosday” þar sem framhaldsmyndir númer tvö verða sýndar á þriðjudögum, til að mynda Texas Chainsaw Massacre 2 og Demons 2. Húmorinn og furðulegheitin eru allsráðandi og gaman er að geta séð eitthvað allt annað en þessar týpísku gömlu myndir sem allir hafa séð milljón sinnum.

Bíóhúsin sjálf eru skemmtilega innréttuð og á göngunum milli salanna má sjá fullt af plakötum, jafnt fyrir gamla spagettívestra sem og ný sérhönnuð plaköt fyrir ýmsar klassískar myndir. Inngangurinn í South Lamar bíóinu er teppalagður eins og hótelið í The Shining og líkan af geimskipinu úr Close Encounters of the Third Kind er að finna í Mueller bíóinu.

Fyrirkomulag Alamo Drafthouse er eitthvað sem íslendingar mættu taka sér til fyrirmyndar. Ef bíóaðsókn dalar mikið sökum samkeppni við internetið, gæti það að bæta við bíóupplifunina kannski verið besta leiðin til að leysa þann vanda. Þetta virðist allavega virka ágætlega í Alamo Drafthouse bíóunum þar sem aðsóknin er yfirleitt mjög góð á alls konar myndir, ekki bara á stórar tæknibrellumyndir sem maður þarf að sjá í bíó til að njóta almennilega.

Ef þið eigið leið til Bandaríkjanna er hiklaust hægt að mæla með að skella sér í Alamo Drafthouse. Fyrir utan Austin eru bíóin þeirra að finna í borgum á borð við New York, San Francisco, Kansas City og víðsvegar í Texasfylki. Planið er að opna fleiri bíó á næstunni, meðal annars í Los Angeles.