Það styttist óðum í endurlífgun Rocky-seríunnar á hvíta tjaldinu, en í þetta skiptið var ákveðið að færa sviðsljósið af titilhetjunni og yfir á Adonis Creed, sonar Apollo sem bæði barðist við og seinna þjálfaði Rocky sjálfan… og ef marka má viðbrögð Bandarískra gagnrýnenda, þá lítur þetta út fyrir að vera með árangursríkari framhalds/endurlífgunum síðustu 10 ára.

Eins og stigin standa er Creed með 93% jákvæðar einkunnir frá 120 gagnrýnendum á RottenTomatoes og virtir gagnrýnendur frá miðlum eins og RogerEbert.com og San Fransisco Chronicle hafa jafnvel gengið svo langt að gefa henni fullt hús stiga.

Myndin skartar Michael B. Jordan í aðalhlutverkinu sem Adonis og að sjálfsögðu endurtekur Sylvester Stallone hlutverk sitt sem ástsælsti boxari kvikmyndasögunnar, Rocky Balboa en í stað þess að stíga í hringinn sjálfur þá gegnir hann nú hlutverki þjálfarans.

Sylvester-Stallone-creed

Jordan og Stallone hafa báðir hlotið hvert hrósið á fætur öðru fyrir frammistöður sínar í myndinni, sem bendir ennfremur til að þetta sé verðugt framhald af farsælustu íþróttamyndaseríu Bandaríkjanna.

Í leikstjórastólnum situr svo Ryan Coogler, sem stökk fram á sjónarsviðið fyrir 2 árum síðan með framraun sinni Fruitvale Station, en hún var álíka vinsæl meðal gagnrýnenda.

 

Spennandi verður að sjá hvort Creed nái að standa í hárinu á síðustu Hunger Games myndinni, Mockingjay Part 2 og nýjustu Pixar-myndinni The Good Dinosaur í aðsóknartölum þegar hún fær útgáfu næstu helgi í Bandaríkjunum.

Creed verður frumsýnd 29. janúar hérlendis.