(eftirfarandi grein er aðsend, höfundur hennar er Oddur Björn Tryggvason)

 

Það er til fullt af frábærum myndum. Svo mikið að topp 250 á IMDB nær rétt svo að gefa nasasjón af þeim. Það eru meira að segja til myndir sem enginn getur réttlætt á nokkurn hátt að séu ekki góðar; t.a.m. „The Godfather“, „One Flew Over the Cuckoo‘s Nest“ eða „Platoon“ svo fáein dæmi séu tekin. Hver og einn getur haft sína sérvisku og ekki haft gaman af þeim en hann getur ekki gefið haldbær rök fyrir því að þær séu lélegar. Þannig að; hvers vegna ætti einhver að eyða tíma sínum, eða peningum, í lélegar myndir? Og hreinlega elta þær uppi?

„Citizen Kane“ er af mörgum talin besta kvikmynd allra tíma á meðan „Plan 9 From Outer Space“ er talin sú allra lélegasta. Ég horfði einu sinni á Kane en hef nokkrum sinnum kíkt á Plan 9. Báðar eru frábærar – bara á sitt hvorum endanum. Það er ekki annað en hægt að dást að hvernig Orson Welles tókst upp með Kane; bjó til nýja tækni við kvikmyndatöku og umbreytti hvernig myndir voru teknar í myndverum; notkun ljósa og skugga og fram og aftur frásagnarmátinn var einnig nýr af nálinni þegar hér var komið við sögu. Að lokum „Rosebud“ – eitt besta „twistið“ sem enn heldur og myndin er að verða 75 ára gömul. Hreint meistaraverk.

Vondar - Plan 9Samt er ég mun líklegri til að skella Plan 9 í spilarann. Eins of flestir vita reyndi Ed Wood sitt allra besta að búa til meistaraverk með boðskap. Honum bara mistókst hrapallega. Það þýðir þó ekki að myndin hafi ekkert áhorfsgildi. Hún hefur það svo sannarlega. Það eru til hundruð ömurlegra mynda sem varla eiga rétt á sér sem falla í gleymskunnar dá á meðan Plan 9 trónir enn á toppnum sem mest áhorfða en jafnframt lélegasta myndin. Á sama hátt og Orson Welles varð ódauðlegur með Kane þá náði Wood sama áfanga með Plan 9. Bara á hinum endanum á skalanum.

Margir dýrka Plan 9 og aðrar álíka lélegar myndir. Maður fer því að velta fyrir sér; hvaða kostum þarf manneskja sem heldur upp á slíkar myndir að búa yfir? Það er nauðsynlegt að hafa skopskynið í lagi og betra ef það hallar í áttina að háði. Gott er að hafa næmt auga fyrir smáatriðum og sér í lagi hlutum eins og órökréttri framvindu mála. Mikilvægast er þó að hafa mikið þol fyrir leiðindum; í raun og veru þarf sannur áhugamaður að þrífast á leiðindum.
Það þarf að kunna að meta ástríðu kvikmyndagerðamanna sem falla í þá gildru að leysa úr læðingi algera vitsmunaeyðileggingu og gera greinarmun á því hvort það er sökum kunnáttuleysis eða algeru áhugaleysi. Það eitt og sér gerir Plan 9 svo lífseiga hjá unnendum; við vitum öll að Wood reyndi sitt allra besta. Hann bara gat ekki gert skárri mynd en raun bar vitni.

Ég fell í þann hóp að hafa tekið ástfóstri við ófáar lélegar myndir og nokkrar þeirra fá án efa óeðlilega mikla spilun á heimilinu. Mig langar að deila þremur af mínum uppáhalds með lesendum Bíóvefsins og reyna að útskýra aðdáun mína á þeim og hvetja fólk til að játa á sig þá skömm að hafa gaman af einhverju lélegu myndefni.

 


„Children Shouldn‘t Play With Dead Things“ (1973 – Leikstjóri: Bob Clark)

children-shouldnt-posterEinhvers staðar þurfa allir að byrja og kanadíski leikstjórinn Bob Clark hóf feril sinn með þessari eftiröpun á „Night of the Living Dead“ (titlaði sig samt sem Benjamin Clark – strax komin ákveðin vísbending þegar leikstjóri notar ekki rétt nafn). Zombie mynd Romero‘s umbylti hryllingsmyndum undir lok sjöunda áratugarins og ótrúlega margar myndir reyndu að gera nákvæmlega sömu hugmyndina bara með aðeins öðruvísi blæ. Í „Children“ lokkar leikstjóri nokkra leikara með sér á litla eyju (skammt frá meginlandinu þó) og vill fá þau með sér til að framkvæma athöfn sem á að vekja hina dauðu. Djókið er að hann leikstjórinn vildi bara hræða leikarana sína (sem hann kallar alltaf „börnin sín“) en í ljós kemur að upplestur hans vekur í raun og veru hina dauðu sem rísa upp í frekar fúlu skapi.

Allt við myndina bendir til viðvaningsháttar. Persónur leikaranna heita sömu nöfnum og leikararnir sem leika þær, lýsing er nær aldei viðunandi og breytist hrikalega mikið oft í sama atriðinu, „díalógurinn“ virkar eins og slappur spuni og leikurinn ávallt of hástemmdur eða of kómískur (eins og allt sé prívat húmor milli leikaranna). Lengd myndarinnar er um 75 mínútur en mest megnis er þetta hangs hjá leikurunum eða ótrúlega langar ræður hjá aðalleikaranum Alan Ormsby um réttlætingar á náriðlun og almennum niðurlægingum í garð leikara sinna.

Samt virkar þetta allt. Clark fékk Alan Ormsby til að leika aðalhlutverkið til að spara pening en Ormsby er fyrst og fremst förðunarsérfræðingur og hann hannaði einmitt útlitið á hinum lifandi dauðu fyrir myndina. Ormsby ofleikur svo mikið (og útlit hans í myndinni er…SPES) og persóna hans er svo viðurstyggileg að hinir dauðu hafa ekki roð við honum hvað illkvitni varðar þegar þeir loks láta sjá sig. Myndin býr óneitanlega yfir ákveðinni stemningu en hún gerist á mjög afmörkuðu svæði á lítilli eyju þar sem einungis er kirkjugarður og bústaður í mjög hrörlegu ástandi…og allt að næturlagi vitaskuld. Atriðið þegar hinir dauðu rísa upp er mjög vel gert hinsvegar og Ormsby er álíka góður förðunarfræðingur og hann er lélegur leikari.

„Children Shouldn‘t Play With Dead Things“ er mín uppáhalds lélega mynd og virkar best með bjór eða í hóp svipað þenkjandi einstaklinga (hef ég heyrt en á enn eftir að hitta þá).

 


Supersonic Man (1979 – Leikstjóri: Juan Piquer Simon)

Vondar - Supersonic 2

Ítalir voru sér á parti með að taka bandarískar stórmyndir og búa til sína eigin útgáfu af þeim. Fyrir töluvert minni pening og með minni kunnáttu, lélegri leikurum og oftar en ekki á litlum sem engum tíma dældu þeir út myndum sem áttu að græða á vinsældum svipaðra mynda sem voru af stærri skala (meira um það í næstu mynd á listanum). Spánverjar áttu sína spretti og þeir hrifust töluvert af „Superman: The Movie“ að því er virðist þegar ráðist var í gerð „Supersonic Man“.

Vondar - Supersonic valtariGeimveran Kronos er kallaður til verka af yfirboðurum sínum þegar villtur vísindamaður á jörðu hefur í hyggju heimsyfirráð og býr yfir miklum vopnaþunga. Kronos dulbýr sig sem Paul (kemur aldrei fram hvað hann gerir eða hvernig hann nældi sér í fína Penthouse íbúð í stórborg í USA) þegar hann er í sínu mannlega formi en hann breytist snögglega í Supersonic þegar hann þarf að láta til sín taka.

Þessi er pínu ósnertanleg í mínum huga. Sá þessa á VHS þegar ég var 4 eða 5 ára gamall og áhorfin eru komin vel á fimmta tuginn. Það þarf oft lítið til að heilla litlu börnin og þessi náði mér algerlega. Hún er náttúrulega ófyrirgefanlega léleg, illa gerð, illa leikin og er í öllum skilningi léleg eftiröpun á Superman. Þeir sem þekkja

„Superman: The Movie“ inn og út kann að þykja forvitnilegt að vita að „Supersonic Man“ stelur einu atriði úr handriti Superman; þegar Ofurmennið hittir fyrst Lex Luthor gengur hann í gegnum neðanjarðar vistverur Luthors og þar er hann skotinn, frystur og brenndur áður en hann kemst í gegn. Þessi atriði litu fyrst dagsins ljós í „Superman: The Movie“ árið 2000 þegar hún var gefin út á DVD en Supersonic upplifir þessar sömu hremmingar þegar hann mætir Dr. Gulick, villta vísindamanninum.

En nógu mikið af lélegheitum er akkúrat góð uppskrift að skemmtun. Supersonic lyftir valtara eins og ekkert sé (sem er svo greinilega gerður úr tré), berst af alefli við vélmenni sem hreyfist álíka hratt og fótbrotin skaldbaka og breytir byssum í banana til að yfirbuga illmenni svo dæmi séu tekin. Svo er hér líka að finna þessa flottu bílategund sem springur í loft upp þegar hún rennur niður brekku – hér meira að segja áður en nokkur árekstur á sér stað.
Grípið þessa. Þemalagið eitt og sér er frábært; auðfinnanlegt á Youtube.


Starcrash (1978 – Leikstjóri Luigi Cozzi)

Vondar - Starcrash PosterLewis Coates sendi frá sér „Starcrash“ árið 1978. Auðsýnilega sækir hún innblásturinn í „Star Wars“ og hún skartar ágætis leikurum; Carolyn Munro, David Hasselhoff, Joe Spinell og Christopher Plummer. Hún hljómaði vafalaust ágætlega þegar hún var á handritastiginu; vísindaskáldsögur voru komnar á hærra plan og flestar voru þær að skila nokkuð góðum hagnaði.

Vandamálið var að Lewis Coates er Luigi Cozzi og hann hreinlega getur ekki gert góða mynd og eins og sönnum ítala sæmir (í geimævintýrum í það minnsta) taldi hann að hægt væri að gera vísindaskáldsögu fyrir lítinn pening og á ofurhraða.

„Starcrash“ á sér haug af fylgjendum og er í miklu dálæti meðal þeirra sem dýrka „vondar“ myndir. Og ekki af ástæðulausu. Hér er allt einstaklega fáránlegt; ég skal reyna að gera myndinni einhver skil. Stella Star (Munro), vinur hennar Akton og vélmennið Elle eru uppreisnarseggir í geimnum og eru hundelt af laganna vörðum. Keisari nokkur (Plummer) fær þau til að liðsinna sér við að hafa uppi á syni sínum (Hasselhoff) sem týndist er hann lagði af stað í stríð gegn vondum greifa, Count Zarth Arn (Spinell) sem hyggst leggja undir sig alheiminn.

Vondar - Starcrash StellaMunro er helminginn af myndinni klædd í hálfgerðan dominatrix búning með förðunina alveg tip top þegar hún ferðast milli pláneta í leit að syni keisarans. Með henni í för er vélmenni sem heitir Elle og talar með suðurríkjahreim (???) með tilheyrandi ÍÍÍÍAAAHHH og þess háttar og Akton (eitthvað smástirni sem heitir Marjoe Gortner) sem gefið er í skyn að sé líka hálfgert vélmenni en vegna þess að Gortner neitaði að láta farða sig var talið að hann gæti komið því til skila með leikhæfileikum sínum.

Erfitt að velja ákveðin atriði hér. Ímyndið ykkur bara „Star Wars“ og allt sem var vel gert þar og snúið því á haus og þá hafið þið ákveðna hugmynd um hvernig „Starcrash“ er. Samt tókst kvikmyndagerðamönnunum að fá John Barry til að semja tónlistina en sagan segir að þeir vildu ekki sýna Barry myndina af ótta við að hann myndi draga boð sitt til baka. Hann notaðist við handritið eingöngu þegar tónlistin var samin.

„Starcrash“ er dálítið sérstök. Luigi Cozzi er einn af örfáu frægu einstaklingunum sem ég hef hitt og rætt við og ef það er eitthvað sem ekki er hægt að saka hann um þá er það áhugaleysi eða metnaðarleysi. Cozzi ólst upp við mikinn áhuga á vísindaskáldskap og hann lagði allt í sölurnar til að gera „Starcrash“ að betri mynd en „Star Wars“. Hann vísar í gömul verk eins og „Jason and the Argonauts“ og „Forbidden Planet“ og reynir að ná upp sama ævintýrablænum. Hellisbúar á frumstæðri plánetu skjóta einnig upp kollinum sem og heljarinnar barátta í víðáttu geimsins til að slútta þessu geimævintýri almennilega. Cozzi hellti öllu í þennan hrærigraut sem hann taldi að hefði eitthvað skemmtanagildi og því er ekki hægt að saka hann um leti.

Vandamálið er að hvert atriði hér er fáránlegt að einhverju leyti. Myndin er hrikalega illa leikin og ekki hjálpar til að Munro er döbbuð, söguframvindan er meingölluð og handritið er svo uppfullt af vondum línum að ekki er hægt að verjast hlátri. Svo talar vélmennið með suðurríkjahreim og heitir Elle (???).

Ég á samt eitt uppáhalds atriði hér: Þegar Plummer finnur son sinn að því er virðist of seint því vondi greifinn setti af stað sprengju sem er í þann mund að springa; þá segir Plummer einfaldlega; „I wouldn‘t be emperor if I didn‘t have some powers at my command. IMPERIAL BATTLESHIP! HALT THE FLOW OF TIME“. Og tíminn stoppar! Nokkuð kúl að geta þetta.

 


 

Þessar myndir eru lélegar; hjá þeirri staðreynd er ekki komist. En þær búa yfir miklu skemmtanagildi. Ég er sennilega kominn í þann elítu-hóp að þrífast visst mikið á leiðindum og ég á það til að leita uppi myndir sem þessi hópur „mælir“ með.

Ég mæli hiklaust með þessum þremur myndum.