Einhverjum finnst kannski titlarnir ekki skipta miklu máli þegar um er seríu að ræða, til dæmis framleiðendum. Þeir gera það samt, sérstaklega því ofar sem fjöldi gefinna mynda fer upp.

Það eru margar seríur sem eru vandræðalega titlaðar (og mjög ofarlega má þarna nefna Final Destination seríuna, sökum þess heitis sem fjórða eintakið valdi sér), en fáar jafnstórar og áberandi klúðurslegar og Fast & Furious.

Þó myndirnar eigi sér heldur (hvað skal segja…) einfaldan markhóp er það lítil ástæða til þess að halda heiladauðum stíl á titlunum. Til að byrja með er lítil samhæfing í heitum þessa myndbálks í bandaríkjunum og evrópu frá með fimmta innslaginu, en í ljósi þess að myndirnar verða örugglega orðnar tuttugu fyrir lok næsta áratugs skulum við aðeins renna yfir þennan stíl nafnagifta, og hversu lauslega er farið með tölurnar.

Ókei, semsagt… fyrst kemur:

 

2001

THE FAST AND THE FURIOUS

Einfalt, þægilegt nafn. Segir allt sem þarf, þó setja megi spurningamerki við það hversu fjúríus þetta teymi í myndinni er – en hvað um það.

 

2003

2 FAST 2 FURIOUS

Jæja, sleppur. Asnalegt, en sleppur.

 

2006

THE FAST AND THE FURIOUS: TOKYO DRIFT

Nú eru helstu leikararnir fjarverandi, en brandið varð að halda áfram. Titillinn gefur til kynna að þetta er augljóslega partur af sömu seríu en greinilega „séreintak“, svona hliðarsaga, ef svo má segja. Skemmst er að segja frá því að þegar þessi mynd kom út héldu margir að þessi bálkur væri orðinn eitthvað bensínlaus.

 

2009

FAST & FURIOUS

Hmmm… Greinilega er þetta svona hálfgert ‘ríbútt’, í bland við það að þetta er rétta framhald fyrstu myndarinnar. Vinnsluheiti myndarinnar var einfaldlega The Fast and the Furious 4. Annars virðist vera meira hipp að sleppa greinunum tveimur. Fólk þarf heldur ekki að heyra annað en Fast og Furious til að vita hvað það er að fara á.
En þá byrjar ruglingurinn.

 

2011

Í bandaríkjunum – FAST FIVE 

Í Evrópu – FAST & FURIOUS 5: RIO HEIST

Titillinn sem kemur fram í flestum eintökum myndarinnar er sá fyrrnefndi. Skiljanlega. Hann er flottari, skarpari og passar. En á evrópsku plakötum myndarinnar er búið að smella fimmunni á gamla nafnið, og ljótu undirheiti. Eins og pósandi Diesel, Johnson og Paul Walker á plakatinu hafi ekki verið nóg til að selja meirihluta áhorfenda hvað þeir væru að fara á…

 

2013

Í bandaríkjunum – FURIOUS 6

Í evrópu – FAST AND FURIOUS 6

Reyndar er ‘Fjúríus Sex’ mjög fyndið nafn, en fittar. Vandinn hér er sá að evrópski titillinn fylgir með nánast öllum Blu-ray útgáfum myndarinnar, þar á meðal í bandaríkjunum.

 

2015

Í bandaríkjunum – FURIOUS 7

Í evrópu – FAST & FURIOUS 7

Þetta er orðið svolítið sterílt núna, en fyrst ekkert er brotið er óþarfi að laga það. Titillinn sem birtist í myndinni sjálfri er þó FAST & FURIOUS 7, á meðan evrópsku heitin hafa hingað til bara verið á plakötum.
Ákveðið ykkur!

 

2017

Í bandaríkjunum – THE FATE OF THE FURIOUS

Í evrópu – FAST AND FURIOUS 8

Nú fyrst að Paul Walker er farinn er kominn tími á nýjan gír, eða upphaf að nýjum þríleik, eins og aðstandendur hafa lofað. Þá er fínt að breyta aðeins til, en aðeins Kanarnir eru svo heppnir að fá nýja nafnið.
Ofan á það er þetta megasóun á tækifæri til að kalla myndina annaðhvort The F8 of the Furious eða Furious F8.

 

Snöggir og Snar númer 8 lendir annars í bíó um páskana.