Fyrir einhverju síðan tók ég upp á því að horfa á Stellu í orlofi með litla bróður mínum. Hann hefur verið tæplega tíu ára á þeim tíma og frá fyrstu mínútu var hann bitinn af Eddu Björgvins veirunni eins og ég vil kalla hana. Nú hef ég óvart komið af stað hefð þar sem við horfum reglulega á Stellu okkar og alltaf skemmtum við okkur stórkostlega. Í seinasta glápi okkar fór ég að velta því fyrir mér hvað það væri sem við sækjumst svona mikið í og hripaði nokkra punkta.

 

Frasarnir

Myndin er uppfull af skemmtilegum frösum sem hægt er að endurtaka oftar en einu sinni um víðan völl og flestir í kring myndu átta sig á úr hvaða mynd frasinn kemur. Sígildu frasarnir eins og „Blessaður þegiðu maður og hugsaðu um þíns eigin typpi!” „Það á að segja Kauptu en ekki Keyptu“, „Partýið er búið, Bára er lögst í bleyti og majonesan er orðin gul.“ „partur af programmet“, „Út með gæruna“ eru bara brot af öllum þeim línum sem myndin færir okkur. Það er svo mikið af gersemum hér að við gætum sett upp Stellu Challenge þar sem tala verður í Stellu frösum í heilan sólarhring og það væri auðveldara en að planka.

Persónurnar

Ólíkt öðrum formúlu myndum eru ekki það fáar persónur að hægt væri að telja þær á annarri hendi. Það er auðvitað fjölskyldan hennar Stellu, Salomon Gustavson sem teljast til aðalpersónanna en án alls auka kryddsins væri þetta ekki sama gullið og hún er. Þá er ég að tala um börnin Trausta og Sigríði, flugstjórann og aðstoðarmann hans, Danska viðhaldið, EGGja-konan og meðlimir Lionsklúbbsins Kidda sem eiga öll sín augnablik í myndinni sem gera hana að svona bragðmikilli afþreyingu.

 

Tónlistin

Upplyftandi sambland af klassískum íslenskum hitturum eins og Ævintýrin enn gerast og Ég er kominn heim ásamt hasar kvikmyndatónlist sem gerir alveg fiskibardagann. Prófið að horfa á hann á mute og það er allt önnur upplifun. Léttir tónar meðan á fiskveiðunum stendur er lýsandi dæmi fyrir myndina og léttleika hennar þar sem harmonikkan er aðalhljóðfærið. Svo er auðvitað meginþemað Stella í Orlofi eitt af þessum íslensku kvikmyndalögum sem er algert heilalím.

 

Hrakfarirnar

Frá byrjun fær Goggi að kenna alveg verulega á því og ég get hreinlega ekki sagt að hann átti það ekki skilið. Margir telja að fyrsta slysið hafi verið þegar hann hrundi í barrið sem leiddi til kolabrenndra kynfæra en það byrjar í afmælisveislunni þegar Stella tekur áfengið afá honum og hann kafar ofan í einhveja hvíta drullu. Nokkuð fín byrjun á því sem kemur (og ágætis „foreshadowing“). Svo bætist í og þetta stigmagnast þannig aumingja Salomon hendir frá sér allri löngun í drykkju og allt þökk sé Stellu.

 

Stella

Persónan, í höndum Eddu Björgvins, er einn skemmtilegasti karakter sem íslensk kvikmyndaframleiðsla hefur gefið okkur. Hressleikinn, gamansemin og hvernig hún lítur á heiminn er yndislegt. Hún er enginn kjáni heldur er hún vitrari en margir halda. Í lok myndarinnar færir hún dóttur sinni og okkur viskubrot sem því miður fáir tengja við myndina og persónuna sem er: „En vandamálin eru til að takast á við þau“

 

Þetta eru helstu ástæðurnar fyrir að ég elska þessa mynd og get horft á endalaust þrátt fyrir að hafa fæðst nokkrum árum eftir að hún kom út. Það að bróðir minn geti horft á þessa mynd sem er næstum 20 árum eldri en hann segir mér að hún muni halda áfram að lifa góðu lífi og vonandi sem lengst. Leiðinlegt að íslenskar gamanmyndir hafi ekki boðið upp á meira í líkingu við hana.

Stella í framboði hins vegar… ja… látum allar umræður um þá mynd eiga sig.