Nýlega fór ég með ungum bróður mínum í bíó á Ratchet & Clank og þar sem íslenska landslið bransagrínara er ekki að heilla mig fórum við á myndina á ensku. Ég á mér enga tengingu við tölvuleikinn en hefði hvort sem er viljað njóta þessara karaktera með upprunalegu röddunum. Aftur á móti fékk ég að finna fyrir góðu smakki á því hvernig íslenska þýðingin hefur komið út, m.v. textann á sýningunni – og hann er vægast sagt pínlegur á tíðum.

Til að nefna nokkur grátleg dæmi um  þá mátti sjá slæmt ritmál þegar við fáum „þaddna“, „sorrí“, „djöggla“ og „gæinn er legend“ sett í íslenska textann sem við lesum því miður ósjálfrátt með myndinni. Augun ranghvolfa sig sjálf þegar hvatningarorð líkamsræktarvélmenna í upphafi myndarinnar þýðast sem „að taka Arnar Grant á þetta“. Einkahúmorsskot á bransaaðila er því miður ekki af skornum skammti, fleygðar eru út í bláinn tilvísanir í haug þeirra, Svala & Svavar meðal annars. Engin ástæða, bara einkaflipp sem skemmir fyrir manni stað og stund í upplifun á myndinni.

Ég er mjög þakklát fyrir að hafa valið að fara á hana á ensku en hefði betur notið hennar með engum texta. Þegar myndin var búin hugsaði ég með mér að þetta væri bara smámunarsemi í mér og ég væri nú á þessari mynd fyrir bróður minn þannig ég ætlaði ekkert að segja, enda hvort sem er illa skrifuð og þreytandi teiknimynd sem trúlega best hentar krökkum og aðdáendum leiksins (sem ég hef lítinn áhuga að spila núna). Hins vegar kom það mér því gríðarlega á óvart þegar bróðir minn minnist á þýðinguna á fyrra bragði og sagði að það væri eins og einhver unglingur hefði verið fenginn til að þýða hana.

Eftir þetta samtal gat ég því ekki annað en skráð niður þessa imprintuðu bíóferð og lélegu þýðingu hennar með ósk um að þýðendur verði valdir af meiri kostgæfni í framtíðinni, sérstaklega þegar um barnamyndir eru að ræða því hvernig börn læra málið hefur áhrif á hvernig það talar í framtíðinni. Þegar tíu ára gutti gagnrýnir málfar og þýðingu fullorðins einstaklings þá hefur prósessinn farið verulega úrskeiðis.