Stutta útgáfan

Hér hefur tekist að brúa kynslóðarbilið milli nýrra og gamalla Rocky-aðdáenda með einni sterkustu myndinni í seríunni. Creed tekur klassísku formúluna og snýr ágætlega upp á hana. Jordan og Stallone sýna báðir stórleik þó hinn síðarnefndi steli algjörlega myndinni. 

8

 

 

Langa útgáfan

Það er ótrúlegt að hugsa sér að ein frægasta kvikmyndasería allra tíma sé búin að stökkbreytast í það að aðalpersónan sé stigin til hliðar og nýr karakter kominn til að bera þá rosalegu þyngd sem Rocky ber. Þrátt fyrir að myndirnar eigi það til að vera misjafnar mun fyrsta myndin ávallt vera talin ein flottasta “underdog” saga sem til er. Það eru ófáar myndir sem hafa reynt nákvæmlega það sem Rocky gerði og hafa misheppnast svakalega. Það var því frekar spennandi að fá nýja mynd í seríuna sem ætlaði sér að hressa svona svakalega upp á gamla kappann og hrista upp í venjum.

Creed er svo sannarlega Rocky mynd. Hún segir sína eigin sögu en það fer ekki á milli mála að hún taki mest allan innblástur frá Rocky 1. Það sniðugasta sem handritið gerir er að setja Rocky á hliðarlínuna sem þreyttan, gamlan og brotinn mann sem hefur löngu slegið sitt síðasta högg. Michael B. Jordan fær því í staðinn að njóta sín í sviðsljósinu sem algjör contrast við Sly. Creed er með stóran kjaft, stórt egó en brothætta sál þar sem hann hefur aldrei fengið samþykkið sem hann óskar eftir. Hann þráir ekkert heitar en að meika það án þess að vera tengdur við ættarnafnið sitt en á sama tíma óttast hann að hverfa langt í skugga föðurs síns. Saman eru þeir Rocky með betri skjápörum sem hafa sést á filmu þetta árið (tæknilega séð „í fyrra“), þó að Stallone sé algjör senuþjófur, enda sá eldri og reyndari.

Myndin er algjörlega karakterdrifin. Líkt og með fyrstu Rocky myndina má finna yndislega ástarsögu. Tessa Thompson fer með hlutverk söngkonu sem er að missa heyrnina hægt og rólega. Heyrnartapið hefur breytt viðhorfinu hennar og ýtir hún strax á Creed að njóta augnabliksins og vera ekki of reiður út í þá hluti sem þú getur einfaldega ekki breytt. Rómantíkin er trúverðug og það er ekki eitt augnablik í myndinni sem maður fær að sjá klisjulegt ástaratriði sem þjónar engum tilgangi. Bianca er ekki hálfskrifaður karakter og lætur í raun ekkert stöðva sig þegar kemur að hennar eigin draumum. Creed tekst því að endurtaka það sem Rocky gerði með að láta manni þykja vænt um allar persónurnar í myndinni og býr til raunveruleg sambönd.

Creed2

Leikstjórinn Ryan Coogler hefur aðeins gert eina sjálfstæða mynd (Fruitvale Station, sem þykir víst mjög góð) áður en hann leikstýrði Creed. Hann er því glænýr í bransanum og er með ólíkindum hvað þetta heppnast vel. Honum tekst að ýta undir tilfiningalegu augnablikin með frábærri kvikmyndatöku þar sem andlit leikarana fylla framann. Það eru því minnstu hreyfingar og svipir sem stjórna andrúmsloftinu. Þegar Coogler vill koma fram mikilvægum samræðum eru skotin alltaf uppsett á fallega staði þar sem báðir leikararnir fá að njóta sín innan rammans og verður samspil þeirra því að vera fullkomið. En eins og ég er búinn að nefna þá eru stóru hlutverkin þrjú fullkomlega leikin. Coogler einbeitir sér verulega að Stallone og fær hann til að sýna besta leik sem hann hefur sýnt í áraraðir.

Það muna eflaust allir eftir „It‘s how hard you can get it and keep moving forward“ ræðunni hans Rocky úr Balboa. Sú ræða lýsti seríunni á fullkomnan hátt og var allt sem karakterinn stóð fyrir. Handritið í Creed tekur þá ræðu og ákveður að gera enn betri, þyngri og tilfiningameiri ræðu sem hittir algjörlega naglan á höfuðið. Eftir að Rocky fær ákveðnar fréttir útskýrir hann fyrir Creed hve miklu hann hefur fórnað, tapað og hvað það stendur ekkert eftir. Þetta er með þyngri og mikilvægari atriðum í myndinni og fullkomnar speglunina á milli kappanna tveggja þar sem Creed er óhræddur við að svara honum með jafn þungum og miklum orðum. Það er í þessu atriði sem að sést að Coogler hefur tekist að búa til annarra-kynslóðar boxmynd með nostalgíuríkum rótum.

Creed mun kynna nýjum fyrir Rocky og vonandi gefa frá sér enn betri framhaldsmyndir. Stallone er alls ekki búinn að syngja sitt síðasta og þrátt fyrir að hafa ekki fengið neina tilnefningu sýnir Jordan stórleik og hristir strax af sér viðbjóðinn sem Fant4stic var. Coogler getur því verið stoltur af þessari framhaldssögu.