Ég er enginn bókaormur, ég les af og til en ég er því miður langt frá því að teljast vel lesinn í bókmenntuðum skilningi. Svo margt sem ég á eftir ólesið og mun líklega aldrei lesa, ég er latt kvikmyndanörd og hef fórnað ýmsu í þágu þess. Ég hef sumsé ekki lesið smásöguna The Man Who Would be King eftir Rudyard Kipling sem var gefin út árið 1888 í bókinni The Phantom Rickshaw and other Eerie Tales. Flestir hljóta að kunnast við margar bækur hans eins og The Jungle Book og… tja, The Man Who Would Be King? Hann skrifaði slatta af smásögum og ritum um Indland enda ólst hann upp þar og The Man Who Would Be King er engin undantekning.

Kipling var frímúrari og sögurnar hans innhéldu oft innblástur úr frímúrara „goðsögum“ ef svo má segja og þessi mynd er stútfull af því. Ég er enginn frímúrari né sérfræðingur um þá en mér skilst að báðir afar mínir fengu boð í regluna þeirra en neituðu. High five? En ég held einnig að þessi smásaga sé í fyrsta og eina sinn sem Kipling notar sjálfan sig í sögunni sem aðalpersónu, svo það er spurning hve mikið af þessu er byggt á sannleika og hvað ekki.

vlcsnap-0698-07-30-20h32m04s284

Sean Connery og Michael Caine leika Daniel Dravot og Peachy Carnehan, tvo fyrrverandi hermenn úr her breska konungveldisins. Þeir eru vandræðagemlingar og frímúrarar í þokkabót. Þeir smygla vopnum, þeir stela þegar þeir þurfa og gera allt mögulegt saman (nema kannski „það“). Peachy er á lestarferð gegnum Indland þegar hann rekst á Rudyard Kipling, leikinn af Christopher Plummer á lestarstöð og rænir úrið hans óséð meðan hann kaupir lestarmiða. Hann kemst þó að því að Kipling er frímúrari og til að varðveita heiðri sínum þá reynir hann að komast með honum í lestina til að skila úrinu án þess að hann sjái til. Gegnum þennan hitting þá komast báðir Peachy og Daniel í kynni við Kipling og segja honum frá áformum sínum að ferðast til Kafiristan (sem er hluti af Afganistan í dag) þar sem þeir ætla að feta í fótspor Alxanders Mikla, sigra ættbálkana og ráða yfir landinu eins og konungar. Kipling er mikið skemmt af Peachy og Daniel og þrátt fyrir efasemdir hans á áformi þeirra þá aðstoðar hann þá að koma sér af stað.

Daniel Dravot er hvatvís og framkvæmir án þess að hugsa mikið. Hann hefur mikla sjarma (enda Connery alltaf sjarmer á skjá) og er vinalegur við alla og elskar kvenfólkið. Peachy hugsar áður en hann framkvæmir og er gáfaðari en Daniel en í stað þess að vera öfundsjúkur um það þá nýtir Daniel gáfur hans opinskátt. Peachy er hugsarinn og Daniel er framkvæmarinn í grófum dróttum. Connery og Caine eru frábært duo og algerlega trúverðugir sem eldgamlir vinir sem þekkja hvorn annan út og inn (nema kannski á þann hátt). Þeir halda myndinni uppi auðveldlega og eru sannfærandi sem menn síns tíma. Mér skilst þó að samband þeirra í myndinni sé að miklu leiti uppspuni þar sem sagan fór aldrei mikið í smáatriðin varðandi vinasamband þeirra. Þeir nýta tækifærið og fylla vel í það og þar af leiðandi gera söguna mun meira grípandi en hún hefði verið án þess. Hér fyrir neðan sjáið þið 100 ára gamlan mann (sem er í alvörunni leikinn af 100 ára gömlum manni) verða agndofa yfir bringuhárum Sean Connery‘s. Þekkjum það öll.

vlcsnap-4972-01-05-00h22m33s375

vlcsnap-2212-03-27-19h37m27s865

vlcsnap-4702-06-24-12h07m01s542

Það er mikill Tinna fílingur af sögunni, ferðalögin eru svipuð og innihalda smá rasíska hugmyndafræði varðandi miðausturlenskt fólk á þessum tíma. Leikstjórinn John Huston notar hvert einasta tækifæri að sýna söguna á eins grand og mikilfenglegann hátt og hugsanlegt er og niðurstaðan er mögnuð. Framleiðslan er mergjuð og útlitið er frábært og leikstjórnin hans er spot on, leikurinn hjá Connery, Caine og Plummer er eins góður og hann verður. Þetta er engin hasarmynd, mig grunar að flestir yngri áhorfendur í dag munu dauðleiðast yfir þessari mynd. Tökurnar eru stöðugar, klippingin er hæg og sagan er á engri hraðferð til að komast að leiðarlokum. Líður meira eins og mynd frá 1955 frekar en 1975, sem er ekki beint mikill munur miðað við kvikmyndir í dag en stíllinn er eins kvikmyndalega sígildur og það gerist án þess að vera svart hvítt, hljóðlaust og í 12 römmum á sekúndu. Fyrir mig er það geðveikt og það gleður aðeins innra kvikmyndasnobbið í mér.

vlcsnap-9807-02-26-14h09m09s403

Myndin var þó gagnrýnd af mörgum gagnrýnendum á sínum tíma fyrir að vera of löng og Caine var gagnrýndur fyrir ofleik. Ef fólki fannst hún of löng þá, get varla ímyndað mér hvað fólki finnst í dag, en lengdin böggaði mig aldrei né leikurinn hjá Caine sem í dag gæti varla talist ofleikinn. Því miður er ekki mikið að gera fyrir konur í þessari mynd, eina konan í myndinni með einhvern skjátíma er augnkonfekt með lítinn sem engan karakter og var leikin af konu Michael Caine henni Shakira Caine og þau eru ennþá gift í dag virðist vera.

Margar sögur og kvikmyndir hafa tekið úr sögunni eftir Kipling. Stargate (1993) hefur mörg einkenni héðan, allt frá að ein aðalpersónan heitir Daniel og fær gefins hálsmeni með mikla meiningu fyrir ættbálkana sem þeir heimsækja. The Road To El Dorado (2000) teiknimyndin er troðfull af Kipling innblástri og er í raun aðeins öðruvísi túlkun á Kipling sögunni. Teiknimyndin tekur meiraðsegja skot beint úr kvikmyndinni á sumum stöðum. Ég held að þessi saga sé galopin fyrir endurgerð eða betur sagt, nýja útfærslu af sögunni. Þó ég telji þessa kvikmynd vera næstum fullkomin útfærsla (þrátt fyrir að hafa ekki lesið söguna) þá væri reyndar býsna áhugavert að sjá ferska útgáfu. Helsti gallinn við þessa útgáfu er ofbeldið og hasarsenurnar, eða betur sagt eina senan sem mætti teljast hasarsena. Stærðargráðan og útlitið er töff en smáatriðin eru of kjánaleg og væg til að hafa nein veruleg áhrif. Þetta er bókstaflega eini gallinn við þessa mynd sem ég er sannfærður um að ný útgáfa myndi án efa gera betur. Allt annað er spurningamerki.

vlcsnap-7907-04-05-20h24m40s404

The Man Who Would Be King er að mínu mati gömul en geðveik kvikmynd sem ég hreint út sagt dýrkaði eftir fyrsta áhorf. Ég dýrka hana enn og mun án efa alltaf dýrka hana en hún er ekki fyrir alla. Hún mun pottþétt reyna á þolinmæðina fyrir yngri kynslóðirnar svo nema þú hafir þol fyrir eitthvað sígilt og öðruvísi, ekki einu sinni reyna það. Fyrir þá sem daðra við frímúrara pælingar/þvælu þá er þetta áhugavert áhorf en aðeins fyrir þá sem eru virkilega áhugasamir. Elskuhugar þessar myndar eru án efa „niche“ hópur hérlendis og kringum heiminn. Ef þú diggar það sem ég skrifað um og fílar 70‘s myndir og eldri þá er þetta kannski fyrir þig. Roger Ebert kom eiginlega með besta summary af myndinni á sínum tíma: „It’s been a long time since there’s been an escapist entertainment quite this unabashed and thrilling and fun.“

Fjörug staðreynd: Allir aðalleikararnir eru ennþá lifandi í dag meðan þessi grein er skrifuð (2016), sem er býsna ótrúlegt miðað við aldur. Reyndar dó Saeed Jaffrey í fyrra en hann var fremstur meðal aukaleikaranna.