Flestir þekkja og elska þessar myndir, en þær voru ekki alltaf taldnar vera jafn frábærar og þær eru í dag. Við kíkjum á hvaða myndir fengu upprunalega hornauga og hvað breyttist.

 

5. The Thing (166. sæti á IMDB Top 250)

„Kjánaleg og þunglyndisleg…leikararnir eru einungis leikmunir fyrir morð..þetta er of kjánalegt til að vera ógeðslegt. Þessi mynd er rusl“ – New York Times.

Gagnrýnendur spöruðu ekki stóru orðin þegar The Thing eftir John Carpenter kom út árið 1982. Roger Ebert var aðeins jákvæðari og kallaði hana „góða ælupoka mynd en tímanum þínum væri betur eytt í að horfa á Alien, ég er þó viss um að þúsundir, ef ekki milljónir, væru til í að horfa á þessa mynd“. Áhorfendur voru þó ekki hrifnir af myndinni og floppaði hún í kvikmyndahúsum. Frá sjónarhorni Carpenters var ekki maður lifandi sem var hrifinn af kvikmyndinni og tók það, að hans sögn, verulega á sjálfstraustið hans og hafði hann litlan áhuga á að ræða um kvikmyndina næstu árin. Ebert hafði þó að lokum rétt fyrir sér. Þegar The Thing fór svo í almennar sjónvarps-útsendingar fór áhorfendahópurinn hægt og rólega að verða stærri og stærri. Fólk var ekki lengur jafn sjokkerað yfir ofbeldinu og fór að meta myndina út frá því sem hún í raun og veru er; brjálæðislega góð, vel leikin og spennandi hryllingsmynd.

 

4. The Shining (60. sæti á IMDB Top 250)

„Því geðveikari sem Nicholson verður því heimskari lítur hann út. Shelley Duvall nær að breyta hlýju, vorkunnalegu, eiginkonunni í vælandi, hálf þroskaheftan móðursýkis-sjúkling“ – Variety

The Shining var langt frá því að fá jafn slæmar viðtökur og The Thing en þeir sem voru á móti henni voru háværir og vinsælir. Roger Ebert var langt frá því að vera hrifinn af henni við fyrsta áhorf og var ekki jákvæður í sínum upprunalega dómi. Hann breytti honum þó seinna og lofaði myndinni í hástöfum. Einnig voru Variety eins grimmir og hægt var að vera, eins og má sjá á tilvísuninni hérna fyrir ofan. Stærsta röddin var þó, og er enn í dag, Stephen King. Það er ekkert leyndarmál að honum er meinilla við útgáfu Kubrick af The Shining. King var ekki hrifinn af öllum breytingunum frá bókinni og taldi Nicholson og Kubrick hafa eyðilagt Jack Torrance. Það sé í raun engin breyting á honum, hann er geðveikur í byrjun og geðveikur í endann. King hefur oft talað um að Jack Torrance og The Overlook Hotel séu endurspeglun á eigin baráttu við áfengi, sem útskýrir að vissu leiti af hverju hann stendur svona fastur á sinni skoðun. Þessar mótmælisraddir leiddu til þess að The Shining var fyrsta myndin hans Kubrick í 20 ár sem fékk ekki Óskars tilnefningu heldur þess í stað tvær Razzie tilnefningar, fyrir verstu leikstjórn og verstu leikkonu.

 

3. It’s A Wonderful Life (24. sæti á IMDB Top 250)

„It’s A Wonderful Life er æðisleg kvikmynd og allir sem sjá hana munu skemmta sér æðislega“ – The Hollywood Reporter

It’s a Wonderful Life var tilnefnd til 5 Óskarsverðlauna og fékk endalaust lof gagnrýnenda, en hvernig var hún þá hötuð? Myndin kom út árið 1946, rétt eftir lok seinni heimsstyrjaldarinnar. Það voru ekki allir gagnrýnendur jafn ánægðir og The Hollywood Reporter með hversu æðislega jákvæð myndin er og það lá við að sumir hefði frekar viljað að myndin hefði endað á brúnni. Áhorfendur höfðu lítinn áhuga á henni. Myndin var stórt tap fyrir stúdíóið sem leiddi til þess að orðspor Franks Capra fékk mikið högg og Hollywood taldi hann ekki lengur hæfan til þess að fylla kvikmyndahús. Nokkrum mánuðum eftir frumsýningu, í maí 1947, lögðu FBI fram athugasemd um að myndin væri viljandi að reyna sýna bankamenn og hástéttir landsins sem vont fólk og ýtti þar af leiðandi undir kommúnisma. Það var svo ekki fyrr en um 1970 sem að sjónvarpsstöðvar fóru að sýna myndina um jólin, einfaldlega af þeirri ástæðu að það var ódýrt að sýna hana. It’s A Wonderful life breyttist þá í, án efa, áhrifamestu jólamynd allra tíma – þó hún sé reyndar ekkert sérstaklega „jólaleg“. Frank Capra sagði m.a.s. í viðtali árið 1984 að hann hafi ekki einu sinni litið á þetta sem jólamynd, en hann væri þó ánægður að sjá að hún væri loksins að öðlast nýtt líf. Þetta væri eins og að horfa á krakkann sinn stækka og verða forseti.

 

2. Fight Club (10. sæti á IMDB Top 250)

„Hvað sem Fincher heldur að skilaboð myndarinnar séu, þá eru þau ekki einhver sem áhorfendur munu ná“ – Roger Ebert

Það þarf ekki að leita langt til að sjá að það var ekki tekið vel í Fight Club á sínum tíma, en hún er ekki með nema 66 á Metacritic. Gagnrýnendur voru ósammála um það hvort að myndin væri í raun meistaraverk eða hrokafull þvæla. Brad Pitt hefur talað um það þegar hann var viðstaddur á kvikmyndahátíðinni í Feneyjum, og var búinn að fá sér nokkra bjóra með Edward Norton fyrir frumsýningu, að þeir hafi verið einu tveir í salnum sem að hlógu að bröndurunum í myndinni. Þegar Helena Bonhem Carter segir svo hina frægu setningu „I haven’t been fucked like that since grade school“ stendur framkvæmdarstjóri kvikmyndahátíðarinnar upp og yfirgefur salinn. Pitt segist hafa haft trú á myndinni frá upphafi, þrátt fyrir það að hún hafi algjörlega floppað. Hann hafði rétt fyrir sér til langs tíma litið þar sem myndin var fljót að ná költ status og er nú ein af vinsælustu myndum allra tíma.

 

1. Vertigo (73. sæti á IMDB top 250)

„Alfred Hitchcock, sem framleiddi og leikstýrði myndinni, hefur aldrei nokkurn tímann áður tekið þátt í jafn langsóttri vitleysu!“ – The New Yorker

Vertigo er talin vera, af BFI (Britis Film Institute), besta mynd allra tíma. Því er erfitt að hugsa sér hvernig hún gat verið svona hötuð og hversu miklar afleiðingar það hatur hafði á Hitchcock. Gagnrýnendum þótti hún vera alltof hæg, flókin og langsótt, en The Variety var einn af fáum miðlum sem hrósuðu myndinni í hástöfum og töldu hana vera með því betra sem Hitchcock hafði gert. Áhorfendur voru þó meira sammála hinum gagnrýnendunum þar sem myndin græddi langtum minna en Hitchock myndir voru vanar að gera. Eftir slakt tímabil í kvikmyndahúsum var hún sýnd reglulega í sjónvarpi næstu 10 árin, alveg þangað til að Hitchock fékk einka-eignarétt á myndinni. Þar sem myndin var ekki enn komin með dyggan áhorfendahóp og talin vera svarti sauðurinn á ferlinum hans þá neitaði hann að láta frá sér sýningarréttinn á myndinni. Það var ekki fyrr en fjórum árum eftir dauða Hitchcock, 1984, sem að myndin fór aftur í sýningu og öðlaðist gríðarlega frægð. Heilum 26 árum eftir sýningu.