Í gær birti Val Kilmer ruglingslega færslu á facebook síðunni sinni sem mátti skilja þannig að ekki bara væri hann að fara að leika í Top Gun 2 heldur myndi Francis Ford Coppola leikstýra henni og Gene Hackman leika í henni!

Síðan áttaði hann sig á og breytti færslunni, því hann átti að við að það að vera boðið að leika í Top Gun 2 var á sama kalíber og fá boð um að leika í mynd eftir Coppola eða leika í mynd með Hackman; tilboð sem hann myndi segja já við án þess einu sinni að lesa handritið.

1404634-iceman_volleyball_scene_med

Eitt sem er þó á hreinu er að Top Gun 2 virðist ætla að verða að veruleika. Verkefnið hefur verið í bígerð í mörg ár en ótímabær dauði Tony Scott, sem leikstýrði fyrri myndinni, setti strik í reikninginn. En nýlega virðist þó einhver hreyfing vera komin á hlutina og er framleiðandinn Jerry Bruckheimer víst búinn að gera einhvers konar samning við Paramount Pictures um myndina. Maður að nafni Justin Marks hefur verið fenginn til að rita handritið (hvers helsta verk hingað til er handritið að leiknu Jungle Book myndinni sem kemur á næsta ári).

Myndin mun víst eiga að fjalla um stöðu orrustuflugmanna í dag þegar drónar eru allsráðandi í hernaði en lítið meira er vitað um söguþráðinn að svo stöddu. Enn er þó ýmislegt ekki á hreinu varðandi myndina, t.d. er ekki staðfest um hvort Tom Cruise muni snúa aftur. En miðað við það búið er að bjóða Kilmer hlutverk í myndinni er komin einhver hreyfing á hlutina og líklega er þetta spurning um hversu mikið menn eru reiðubúnir að borga Cruise fyrir að leika í myndinni.

Eitt annað sem gæti þó sett strik í reikninginn er sú staðreynd að Val Kilmer sé líklega kominn með hálskrabba. Kilmer sjálfur hefur neitað því en aðrir sem eru nánir honum segja að hann sé í afneitun og orðinn mjög langt leiddur, því er ekkert víst hvort Kilmer muni yfir höfuð geta leikið í myndinni. Fyrir utan að hann hefur ekki verið í neinu fantaformi undanfarin ár, en þar sem maðurinn er farinn að slá í sextugt er ólíklegt að hann verði í miklum hasar í myndinni og frekar að Iceman sé orðinn einhvers konar kennari eða mentor. Aftur á móti er allt líklegt með hr. Cruise og gæti hann allt eins verið að hoppa á milli flugvéla uppi í háloftunum miðað hvað hann hefur verið að gera á hvíta tjaldinu undanfarin ár.

En hvort sem Top Gun 2 verði gerð eða ekki munum við alltaf hafa þetta: